þriðjudagur, 18. október 2005

Skammdegið lætur ekki að sér hæða

það læðist aftan að manni og allt í einu er myrkur þegar maður vaknar á morgnana og svoooo erfitt að koma sér á fætur. Og ef eitthvað er, jafnvel enn erfiðara að hafa sig af stað í sundið. Í búningsklefanum er ég enn að hugsa um hvað ég sé þreytt og hef orð á því við konu sem þar er stödd að ég nenni varla að synda í dag. "Þú sleppir því og ferð bara í pottinn og gufuna eins og ég gerði" svarar hún, reiðubúin að leysa öll mín vandamál, en mér finnst það hálfgert svindl. Veit líka eins og er að þá missi ég af því að anda að mér súrefni og fá blóðið almennilega á hreyfingu. Fer geispandi í sturtu og hitti þar fyrir aðra konu sem segir "já, nú er skammdegið komið, allt verður svo miklu erfiðara í skammdeginu" alveg eins og hún hafi lesið hugsanir mínar. Ekki get ég annað en tekið undir það. Síðan dröslast ég þreytulega að bakkanum, læt mig leka ofan í laugina og viti menn... um leið og ég spyrni mér frá bakkanum og tek fyrstu sundtökin er ég búin að steingleyma því að ég hafi átt eitthvað erfitt með að koma mér af stað ;O)

Engin ummæli: