laugardagur, 17. september 2005

Er að ná nýjum hæðum í bloggleti

og engin afsökun fyrir hendi. Líklega finnst mér heldur lítið vera að gerast hjá mér þessa dagana en eins og einhver sagði "engar fréttir eru góðar fréttir" þannig að kannski er það ekki svo slæmt þó ég hafi frá litlu að segja.

Það gengur hálf illa að klára baðið, nú er það baðkarið sem er að stríða okkur. Við keyptum nuddbaðkar í verslun í Reykjavík, á sama stað og við keyptum baðinnréttinguna, blöndunartækin og klósettið. Fengum góðan magnafslátt þannig að við vorum bara sátt. Áttum að fá allt heila klabbið sent norður í sömu sendingu en fljótt áttuðum við okkur á það vantaði einn skáp og svo tvo af fjórum fótum undir baðið. Já, og svo höfðum við fengið sendan vitlausan spegil.

Ég hringdi suður og kvartaði undan þessu og fljótlega komu þessir hlutir norður með bíl. Svo leið og beið og baðið var flísalagt og svo mættu pípararnir aftur á svæðið til að gera sitt - en viti menn þá kom í ljós að það vantaði festingar á baðkarið, bæði til að festa það við vegginn og festa svuntuna. Ég var þá líka búin að átta mig á því að það vantaði ljós sem átti að fylgja speglinum. Við hringdum bæði suður, píparinn og ég, og þeir í búðinni lofuðu að koma þessu dóti á fyrsta bíl. Svo leið tíminn og eftir tæpa viku hafði ég áttað mig á því að þeir hefðu greinilega gleymt okkur.

Hringdi aftur suður og aftur lofuðu þeir öllu fögru. Í þetta sinn stóðu þeir við orð sín og sendingin skilaði sér eftir tvo daga. Píparinn mætti aftur á svæðið í gær og festi baðið. Komst þá að því að einn nuddstúturinn lak og festingarnar fyrir svuntuna voru vitlausar. Hann fékk mann hér í bænum til að búa til nýjar festingar og kíttaði nuddstútinn með einhverju límkítti - og svo eigum við að fylla baðkarið í dag til að tékka á því hvort það er í lagi með viðgerðina... Sem sagt hálfgerð langavitleysa allt saman og ekki útséð um það hvernig þetta fer ennþá.

Engin ummæli: