Það er nú hálfgert ástand á fjölskyldunni þessa dagana. Tengdasonurinn kominn með lömun í helminginn af andlitinu (sem gengur vonandi tilbaka) og svo skar Andri sig í fingurinn í kvöld, stóran skurð með brauðhnífnum, og pabbi hans þurfti að fara með hann upp á sjúkrahús og láta sauma hann. Mér brá nú við þetta enda sá ég óhappið gerast og sá bara í hvítt og hélt að hann hefði skorið sig inn að beini. En sem betur fer skaddaðist ekki sinin þannig að hann slapp við aðgerð og vesen. Ég er hálf glötuð eitthvað þegar svona lagað kemur uppá. Kalla bara á Val og bíð eftir því að hann reddi málunum. En ef í harðbakkan slægi þá gæti ég nú verið róleg og yfirveguð og farið með barnið á slysadeildina, það er bara svo þægilegt að geta treyst á að Valur sjái um allt svona lagað. Því miður var hann hvergi nálægur þegar Hrefna fór í "meint" hjartastopp í sumar, mér hefði örugglega liðið betur ef hann hefði verið á svæðinu. Ég held reyndar að mér hafi aldrei brugðið svo mikið á allri ævinni eins og mér brá þá - og gott að vera stödd á slysadeildinni af öllum stöðum - en það er nú önnur saga.
Annars er bara vinna og aftur vinna + afslöppun um helgar + sundferðir á morgnana. Var búin að gera þrjár tilraunir til að komast á kaffihús í síðustu viku en þær klikkuðu allar. Fyrst vegna kvennafrídagsins, svo vegna ælupesti vinkonu minnar og síðast vegna þess að önnur vinkona afboðaði sig. Og ég sem var að reyna að gera átak í því að eiga mér eitthvað líf utan vinnunnar ;O)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli