miðvikudagur, 26. október 2005

Það er alltaf hálfgert happdrætti

að velja sér braut til að synda í á morgnana. Flestir eru reyndar svo vanafastir að þeir synda alltaf í sömu brautinni og ég er t.d. farin að vita að á braut 1, 5 og 6 er yfirleitt eldra fólk sem syndir hægt. Á braut 2 eru flestir sem synda með blöðkur og gæti því verið fínt fyrir mig að vera þar, en þau eru ansi mörg svo ég nenni ekki að vera þar. Þannig að það er yfirleitt spurning um brautir 3 eða 4 fyrir mig.

Í morgun voru tvær manneskjur að synda í braut 4 svo ég fór í 3 í staðinn því þar var bara ein kona. Og mér til mikillar ánægju fór hún uppúr rétt um það leyti sem ég var að setja blöðkurnar á mig og ég hafði brautina út af fyrir mig. En Adam var ekki lengi í Paradís... fljótlega kom karlmaður sem syndir alltaf bringusund (blöðkulaus) en það var allt í lagi, ég fór bara framúr honum þegar við átti. Nema hvað, skömmmu síðar kemur ein eldri frú (sem er reyndar ótrúlega spræk, syndir skriðsund og hvaðeina en bara alveg rosalega hæææægt) og þá vandaðist málið.

Nú þurfti ég að fara framúr tveimur manneskjum og karlmaðurinn þurfti að fara fram úr konunni í hverri ferð því hann synti töluvert hraðar en hún. Sundferðin breyttist sem sagt í hindrunarsund þar sem aðalatriðið var að reikna út fjarlægðir og tímasetja framúrsund rétt svo enginn myndi slasast... Þetta gekk nú allt vel - en mikið rosalega held ég að þau tvö hafi verið fegin þegar ég fór uppúr ;O)

Engin ummæli: