fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Er öll að koma til

en hins vegar kvörtuðu Hrefna og Andri bæði undan því að vera komin með einhver særindi í hálsinn í kvöld þannig að það er spurning hvort mér hefur tekist að smita alla fjölskylduna af þessari pest. Vonandi ekki!

Valur fór í veiði í Mývatnssveit í dag, í síðasta sinn á þessu sumri. Ekki var nú veðurspáin góð fyrir veiðidagana, 4-5 stiga hiti (kuldi) og rigning (slydda?) en minn maður var hvergi banginn og fór af stað með sömu tilhlökkun og ávallt.

Ég hefði átt að vera byrjuð í vinnunni í þessari viku en sökum veikindanna þá hef ég bara verið heima (ég var svo veik að Valur bauðst til að skrifa upp á fúkkalyf handa mér og það gerist nú ekki að ástæðulausu, svo mikið er víst...). Nú þýðir ekki að vera með neinn aumingjaskap lengur, sjúkrapróf á morgun og styttist í venjubundna kennslu. Í þetta sinn er ég að byrja með áfanga sem ég hef ekki kennt áður, neytendahegðun, en þá fæ ég loksins tækifæri til að nýta mér sálfræðina sem ég lærði forðum í Noregi því neytendahegðun byggist mikið á öðrum félagsvísindum, s.s. sálfræði, félagsfræði og mannfræði. Ég segi það nú ekki, ég hefði gjarnan viljað vera komin með kennslubókina fyrr í hendurnar en eins og við Íslendingar segjum svo gjarnan: "Þetta reddast!"

Já, á meðan ég man, múrarinn kom aftur í dag... og ætti samkvæmt áætlun að byrja að leggja flísarnar á baðherbergið á morgun. Við höfum sýnt fádæma þolinmæði í sambandi við iðnaðarmennina og nennum ekki að vera að stressa okkur yfir því hvort þeir mæta í þessari viku eða næstu (eða þessum mánuði eða næsta), þetta hefst allt fyrir rest.

Engin ummæli: