þriðjudagur, 19. október 2004

Komin heim

frá París. Frábær ferð, hefði bara mátt vera deginum lengri (a.m.k.). Allt gekk eins og í sögu, hótelið var mjög fínt og afskaplega vel staðsett. Örstutt að ganga niður að Signu og Notre Dame kirkjunni og svo var þetta hverfi (6. hverfi) rosalega lifandi og skemmtilegt. Við vorum ekki með neina sérstaka dagskrá, gerðum bara það sem okkur datt í hug hverju sinni. Fórum m.a. á Pompidou listasafnið, Musée d'Orsay og kíktum á Eiffel turninn. Nánari ferðasaga verður að bíða betri tíma. Ókum svo norður í gær í þvílíka veðrinu. Fyrst var óveður á Kjalarnesi og fór vindhraðinn upp í 45 m/s í verstu hviðunum. Þá þýddi ekkert annað en hægja verulega á sér og stoppa jafnvel. Síðan var áfram rok alla leiðina og sums staðar bættist við rosalegur éljagangur, skafrenningur, hálka og snjókoma svo ekki sá út úr augum. Maður var feginn ef það grillti í næstu vegstiku, svo lélegt var skyggnið. Sem dæmi má nefna þá tók það okkur nærri tvo tíma að keyra frá Varmahlíð til Akureyrar. En allt hafðist þetta að lokum og nú er það bara "back to reality" eftir þessa pásu frá daglega lífinu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært að ferðin gekk vel! En datt ykkur ekkert í hug að bíða af ykkur óveðrið?!!
Kveðja, Rósa