fimmtudagur, 16. desember 2004

Forvitni

er furðulegt fyrirbæri. Það hefur löngum talist löstur að vera forvitinn og þar sem ég hef ýmsa lesti er ég að sjálfsögðu forvitin í meira lagi. Ekki þó á þann hátt að vilja vita sem mest um náungann (í þeim tilgangi að slúðra), ónei! Hins vegar vaknar forvitni mín oft í tengslum við ótrúlegustu hluti.

Þannig er mál með vexti að skrifstofan okkar Bryndísar er á svokölluðum tengigangi í byggingunni og ótrúlegur fjöldi fólks á þar leið um á hverjum degi á leið í matsalinn. Þrátt fyrir ónæði/hávaða á köflum viljum við helst hafa hurðina opna því fólk sem við þekkjum stingur þá oft inn nefinu og kastar á okkur kveðju þegar það á leið hjá. Gallinn er bara sá að þegar ég sit við vinnu mína lendi ég iðulega í því að heyra á tal fólksins sem gengur framhjá. Og heyri að sjálfsögðu bara slitur úr samtalinu því gangurinn er frekar stuttur. Þá kemur forvitnin upp í mér og mig langar ekki ósjaldan til að heyra meira.

Í dag t.d. gengu nokkrir karlmenn framhjá og umræðuefnið var epli. "Já, mér finnast Red Delicious mjög góð en vil helst ekki kaupa þau því þau eru geisluð" (Halló! Hvað á maðurinn við með geislum??? Hér er forvitni mín vakin). "Á ég að segja þér hvað ég geri við epli?" segir þá hinn. "Ég set þau alltaf í örbylgjuofninn". (Örbylgjuofninn??? Til hvers í ósköpunum? Hefur það eitthvað með geislana að gera?) Spyr ég sjálfa mig en heyri ekki meira því þeir eru farnir. Og eftir sit ég með sárt ennið, forvitnin alveg að drepa mig og minnstu munar að ég elti aumingja mennina fram í matsal til að fá forvitninni svalað.....

Engin ummæli: