miðvikudagur, 29. desember 2004

Er að lesa

Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Þetta er mikil saga, bæði að inntaki og lengd (447 bls.) og vel skrifuð. Eini gallinn er sá að ég get ekki lagt bókina frá mér fyrr en hún er búin - og sennilega ástæðan fyrir því að ég byrjaði ekki á henni fyrr! Ég hef þennan ávana að þurfa helst alltaf að vita hvernig sögurnar enda og á það jafnvel til að lesa endinn áður en ég er búin með bókina, manninum mínum til mikillar mæðu, hann skilur ekki svona háttalag. Á líka erfitt með að hætta að horfa á kvikmyndir og sjónvarpsþætti í miðjum klíðum, hangi jafnvel yfir einhverju sem mér finnst hundleiðinlegt, bara til að vita endirinn. Jafnframt er fátt sem veldur mér meiri gremju en myndir sem enda ekki. Bara allt í einu klippt á söguþráðinn og enginn fær að vita meir. En sem sagt - ég er ekki búin að lesa endirinn á Karitas - svo það er best að hverfa aftur á vit sögunnar og hætta þessu pári.

Engin ummæli: