mánudagur, 25. október 2004

Þetta er allt að koma

(er ekki annars eitthvað leikrit með þessu nafni?). En það sem er að koma er vinnuaðstaðan hjá Innan handar sf. Við Bryndís vöktum mikla athygli í dag með þessari ósk okkar að vilja fá að vera saman með skrifstofu. Var sagt að yfirleitt kvartaði fólk yfir of litlu rými - en ekki öfugt. En þrátt fyrir ýmsar glósur (að veggirnir myndu hrynja undan þrýstingnum, að við myndum gefast upp á þessu fljótlega o.s.frv) þá fengum við aðstoð Matta húsvarðar við að færa til húsgögn milli herbergja og fá tvö lítil skrifborð inn í herbergið í stað eins stórs sem var þar fyrir. Þannig að á morgun getum við sótt kassana með dótinu okkar og farið að koma okkur fyrir. Svo eru bara "smámunir" eins og síma- og tölvusamband eftir. En það kemur nú fyrir rest.

Síðasta nótt var frekar skrýtin hjá mér. Ég var í saumaklúbbi í gærkvöldi og eins og mín er von og vísa gekk mér afskaplega illa að sofna þegar ég kom heim. Þetta er ættgengur kvilli, að geta ekki sofnað ef eitthvað örlítið meira en venjulega er í gangi. Sofnaði nú samt seint og um síðir, líklega ca. um tvöleytið en hrökk upp þegar klukkuna vantaði korter í fimm við það að unglingurinn á heimilinu var að hefja undirbúning að því að fara í háttinn. Lá vakandi og hlustaði á hann fara á klósettið, bursta í sér tennurnar (og líklega kreista þónokkra fílapensla miðað við tímalengdina á klósettferðinni) og á endanum, fara inn í rúm. Ég var svo fúl yfir því að hann væri að fara svona seint að sofa að ég fór að æsa mig (í huganum) yfir kennaraverkfallinu og auðvitað yfir syninum fyrir að snúa sólarhringnum svona við. Þannig að ég sofnaði ekki aftur fyrr en rúmlega sex og svaf til átta. Dreif mig í leikfimi þegar ég vaknaði og var ánægð með það - sérstaklega þegar ég var búin!

Engin ummæli: