föstudagur, 10. desember 2004

Fór í klippingu í dag

eins og blogg-kunningjakona mín í Reykjavík. En gagnstætt við hana þarf ég að lita á mér hárið, enda orðin meira en lítið grá í vöngum og ekki alveg tilbúin að verða svona "gömul" strax. Á meðan ég beið með litinn í hárinu las ég Nýtt Líf, Mannlíf, Séð og heyrt.. en sat svo stundarkorn og slappaði af. Þá varð ég m.a. vitni að eftirfarandi orðaskiptum:

Strákur (ca. 10-11 ára) segir við hárgreiðslukonuna: "Þegar þú varst lítil, hvað langaði til þá til að verða þegar þú yrðir stór?"

"Mig langaði annað hvort til að verða hárgreiðslukona eða sálfræðingur."

"Sálfræðingur! Af hverju langaði þig til að verða sálfræðingur?"

"Ég veit það ekki, mér fannst það bara eitthvað svo spennandi".

"Mamma segir að sálfræðingar séu þeir sem langaði til að verða læknar en voru ekki nógu gáfaðir og þess vegna urðu þeir sálfræðingar."

Samtalinu lauk reyndar ekki alveg hér, hárgreiðslukonan sagði að sig hefði nú aldrei langað til að verða læknir, og eitthvað ræddu þau þetta áfram. Hins vegar varð þetta svar stráksins til að gefa orðatiltækinu "Það læra börnin sem fyrir þeim er haft" alveg nýja merkingu í mínum huga. Hugsið ykkur hvernig við viðhöldum fordómum endalaust í þjóðfélaginu þegar börnin okkar drekka þá í sig svo að segja með móðurmjólkinni.

Og hugsa sér hvað börnin okkar gætu orðið víðsýn ef aðeins við foreldrarnir kynnum að gæta tungu okkar betur. Já, ekki bara gæta þess hvað við segjum heldur miða markvisst að því að tala á uppbyggjandi hátt við börnin okkar. Um þau sjálf, skólann (og kennarana), öryrkja, gamalt fólk, nýbúa... o.s.frv. Mikið væri nú uppbyggilegt að búa í heimi þar sem jákvæðni í garð annarra væri ríkjandi. Þar sem við værum ekki alltaf að upphefja okkur sjálf á kostnað annarra. Þar sem fólk er metið að verðleikum fyrir það hvað það er, ekki fyrir það hvað það á.

Engin ummæli: