Mér leiðist og það er nákvæmlega engin ástæða til þess að láta sér leiðast. Ég er búin að synda og gera æfingar með morgunhópnum. Búin að borða morgunmat, búin að fletta í gegnum helling af jólablöðum Morgunblaðsins og henda slatta (uppgötvaði heilan haug af þessum blöðum þegar ég var að þrífa eldhúsinnréttinguna). Búin að ryksuga eldhúsið og forstofuna og er á leiðinni að fara að skúra. Hef ýmis verkefni sem ég gæti sinnt, eins og að fara í gegnum bókhaldið 2008 svo hægt sé að skila því til endurskoðanda, auk annarra verkefna. En nenni engu. Langar út að ganga en eina vinkona mín sem er heima á morgnana fer alltaf út á hundasvæði með hundinn og annarri vinkonu á morgnana, þannig að ekki þýðir að tala við hana. Og aldrei þessu vant nenni ég ekki ein, yfirleitt er mér nefnilega alveg sama þó ég fari ein út að ganga. Úti er prýðilegt veður, sól á köflum og frekar hlýtt en smá gola og stöku vindkviður. Gæti kannski druslast út í Kjarnaskóg með myndavél... En fyrst þarf ég að skúra. Svo fer ég að vinna klukkan tvö. Allra mest langar mig bara eiginlega upp í rúm og sofa... En það er nú alveg bannað!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli