Já það finnst mér hálf furðuleg samsetning en það er greinilega kaldara uppi í háaloftunum en hér niðri við jörð. Fólk er almennt orðið afskaplega þreytt á þessum endalausa vetri, það heyrir maður. Snjókoman var algengasta umræðuefnið í sundlauginni í morgun, nánast allir sem ég hitti höfðu orð á henni. Ég vona samt að það fari að hætta að snjóa því Andri og Sunneva ætla að keyra suður á föstudaginn, á Toyota Yaris, og sá bíll er nú ekki sérlega góður í snjó. Svo er erfitt að ganga úti í þessum snjó/hálku. Ég er alltaf skíthrædd um að detta (og já ég á eftir að fá mér mannbrodda, Valur er búinn að segja mér það svona þúsund sinnum) og verð svo stíf í skrokknum og bakinu eftir gönguferðir í hálku að heilsubótin fer fyrir ofan garð og neðan.
Við uppgötvuðum það um daginn hvað við erum orðin háð sorpkvörninni í eldhúsvaskinum. Hún bilaði nefnilega og er enn í ólagi. Valur tók hana reyndar áðan og fór með hana í póst, það er enginn aðili sem getur gert við svona græju hér fyrir norðan svo það þarf að senda hana suður. En það sem sorpið eykst aftur þegar þarf að henda öllum matarafgöngum, hýði o.s.frv. í ruslið. Við vorum komin niður í tvo haldapoka í viku og stundum bara einn en nú sýnist mér þeir verða að minnsta kosti fjórir. En við getum jú áfram flokkað pappír, fernur, gler, málma og plast, svo það er nú dágott magn sem fer ekki í sorpið þó matarleifar geri það.
Og nú dettur mér bara ekki fleira í hug að sinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli