Ég held uppteknum hætti og fer einungis í heitasta pottinn í sundlauginni. Yfirleitt er ég ein þar en stundum mæta nokkrir sjóarar á sama tíma og ég. Það er forvitnilegt að heyra þá spjalla saman um aflabrögð, bilanir í vélarrúmum og annað sem til fellur. Í morgun kom einn aðeins seinna en hinir og heyrðist þá í öðrum sem fyrir var í pottinum: "Þessi ætlar greinilega ekki að synda sínar 100 ferðir eins og venjulega. Er skrúfan kannski biluð?" Þetta fannst mér pínu fyndið því sjálfri hefði mér ekki dottið í hug að tala um skrúfu í þessu sambandi - en ég er jú heldur ekki sjómaður...
Annað sem mér finnst fyndið í sundinu þessa dagana eru ungu stelpurnar sem hafa greinilega legið mikið í ljósum undanfarið. Þær eru ægilega brúnar og sætar - nema á einum stað. Undir rasskinnunum, eða þar sem rassinn mætir lærunum. Þar blasa við tveir hvítir "goggar" sem opnast og lokast þegar gengið er. Og maður sér langar leiðir að ljósabekkir eru orsök brúnkunnar en ekki sólbað í útlandinu. Og ég er örugglega eitthvað skrýtin að taka eftir þessu en mér bara finnst þetta eitthvað svo hallærislegt.
Annars finnst mér alveg yndislegt hvað daginn er farið að lengja, þó allt sé nú enn á kafi í snjó hér norðan heiða. Ciao,
föstudagur, 3. apríl 2009
Sjómannamál
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli