laugardagur, 11. apríl 2009

Bara ekkert sem pirrar mig í dag


Happy couple, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég hef greinilega fengið svona góða útrás hérna á blogginu í gær, hehe. Það er lykilatriði að hefjast handa og bara framkvæma eitthvað þegar maður er í svona skapi, þá líður manni strax betur :-) Eftir að Valur reið á vaðið og tæmdi brúnu hilluna inni hjá Ísaki þá hélt ég áfram og lagaði til inni hjá honum. Þannig að nú er allt klárt fyrir tölvuna sem hann fær og skrifborðið sem á reyndar eftir að velja. Það getur varla orðið mjög flókið því hér á Akureyri eru einungis tvær verslanir sem selja skrifborð, Rúmfatalagerinn og Vörubær. Ég var búin að kíkja aðeins í þá fyrrnefndu og sá tvö borð sem mér fundust koma til greina en auðvitað fær Ísak sjálfur að velja sér borð, þannig að við förum væntanlega í leiðangur á eftir.

Við Valur erum nokkuð dugleg að skreppa í ljósmyndaleiðangra þessa dagana. Um daginn fórum við út á Gáseyri og á skírdag fórum við í Mývatnssveit. Þar voru reyndar afar óheppileg birtuskilyrði þannig að við ókum upp að Kröfluvirkjun og gengum að Leirhnjúk. Þangað höfðum við ekki komið áður og var virkilega gaman að rölta þarna um í snjónum og gufunni sem lagði frá heitri jörðinni. Hins vegar gerði gufan ljósmyndunina frekar erfiða því hún ruglaði fókusinn svo mikið og margar myndir hreinlega ekki í fókus þó maður héldi að þær væru það. Ég var líka að prófa aðra linsu en ég er venjulega með og hún er föst, þ.e. það er ekki hægt að súmma með henni og því erfiðara en ella að fanga myndefnið. En þrátt fyrir allt þá var þetta hin besta ferð og gaman að við skulum eiga þetta sameiginlega áhugamál hjónin :-)

Engin ummæli: