mánudagur, 20. apríl 2009

Fyndið hvernig lykt kallar fram minningar

Ég keypti nýtt þvottaefni ég gær. Undanfarið hef ég verið með umhverfisvænt þvottaefni sem ég keypti í Heilsuhorninu en mér bara finnst lyktin af því svo vond einhvern veginn að mig langar ekki til að nota það lengur. Þannig að í gær keypti ég lítinn kassa af Aríel þvottadufti, bara svona til að prófa. Ég nota reyndar alltaf miklu minna heldur en gefið er upp á kassanum því það er bara rugl að nota heilan helling af þvottaefni fyrir þvott sem er ekkert svo skítugur. Nema hvað, fyrsta þvottinn sem ég þvoði með þessu nýja Aríel hengdi ég upp úti á snúru og fann því enga sérstaka lykt af þvottinum. En seinni vélina hengdi ég upp í þvottahúsinu því það var orðið svo hvasst úti.

Og þá gerðist það að þvottahúsið angaði af lykt sem ég kannaðist vel við og í huganum var ég óðara komin í þvottahúsið í íbúðinni sem við leigðum í Bergen fyrir heilum nítján árum síðan. Þá notaði ég reyndar eitthvað norskt þvottaefni en lyktin af því hefur greinilega verið mjög svipuð þessari af Aríel efninu. Og um leið og ég mundi eftir þvottahúsinu mundi ég eftir köttunum sem við áttum þá og sváfum í þvottahúsinu á nóttunni, alveg eins og kettirnir okkar gera núna. Þeir voru kallaðir þeim frumlegu nöfnum Svartur og Gráni en það fór nú hálf illa fyrir þeim greyjunum. Við höfðum eignast þá þegar fyrrverandi eigandi ætlaði að láta aflífa þá en af því Hrefna var alltaf að leika við þá fannst okkur að við yrðum að taka við þeim.

En svo leið að heimferð til Íslands um sumarið og við komumst að því að kostnaður við að hafa þá á kattahóteli tímann sem við yrðum í burtu var álíka mikill eins og flugfarið okkar allra fram og tilbaka. Og ekki þekktum við neinn sem vildi taka að sér tvo ketti. Þannig að eftir mikla sálarangist var ákveðið að láta aflífa kettina. Kom það í minn hlut að fara með þá og mikið ofboðslega sem það var erfitt, ég var alveg miður mín á eftir. Og Hrefnu var lofað að þegar við flyttum til Íslands aftur myndum við aftur fá okkur gæludýr. Sem leiddi til þess að við höfum haft fiska, fugla, kanínu og ketti - en kettina sýnu lengst. Birta gamla verður tíu ára á þessu ári, hvorki meira né minna, og þau eru auðvitað orðin eins og ein af heimilis"fólkinu".

Jamm og jæja, þarna sjáið þið hverju smá lykt af þvottaefni getur komið af stað... Það er nú reyndar spurning hvort ég þoli þessa lykt nokkuð frekar en hina - þarf að finna eitthvað lyktarlaust þvottaefni sem líka þvær vel.

Engin ummæli: