þriðjudagur, 4. janúar 2005

Var að koma

úr frábærlega hressandi göngutúr með vinkonu minni. Veðrið sýndi sitt fegursta andlit, snjóhvít fönn yfir öllu, rétt um frostmark og svo stillt að ekki blakti hár á höfði. Við gengum út úr umferðarniðnum, út að golfvelli og upp að golfskála. Þar var reyndar hálf brjálaður hundur á harðahlaupum fram og tilbaka en engan sáum við eigandann. Hvar svo sem hann var hafði hann a.m.k. haft rænu á því að klæða hundinn í endurskinsvesti þannig að ekki var hætta á að voffi yrði keyrður í klessu. Hins vegar óttuðumst við eitt andartak um að vera sjálfar keyrðar í klessu á bakaleiðinni þegar þrír snjósleðar komu á hvínandi siglingu og var einn þeirra ljóslaus. Ég reyndi að sveifla endurskinsmerkinu í gríð og erg (þetta er sveitavegur, engin lýsing) og viti menn, þeir brunuðu framhjá okkur án þess að að slys hlytist af.

Á heimleiðinni fór ég í Hrísalund og keypti fisk í matinn. Tók húfuna af mér fyrir utan og mætti í búðina með hárið svo rafmagnað að það klesstist allt upp að höfðinu á mér - hefði betur haft húfuna á mér áfram!

Rétt í þessu datt dóttir mín inn úr dyrunum að sækja launaseðilinn sinn sem á einhvern undarlegan hátt ratar alltaf inn um lúguna hjá okkur, líklega vegna þess að hún hefur ekki ennþá haft fyrir því að skipta um lögheimili. Ég notaði tækifærið og reyndi að koma stóra speglinum hennar með henni út aftur en hún harðneitaði, þrátt fyrir að ég benti henni á að spegillinn myndi smellpassa fyrir ofan annan sófann hjá þeim... En í sárabætur þá tók hún við bókinni (Roadtrip Nation) sem ég bauðst til að lána henni - enda er hún í sömu krísu og mútta gamla, veit ekkert hvað hún vill verða þegar hún verður stór.

Engin ummæli: