fimmtudagur, 27. janúar 2005

Máninn fullur fer um heiminn...

Stundum þegar ég er í bílnum á leiðinni eitthvert og ekki að drepast úr stressi horfi ég í kringum mig til að upplifa eitthvað fallegt. Stundum eru það skýin, stundum börn að leik, stundum frostþoka yfir Pollinum (þeim eina sanna). Í morgun var það tunglið. Mikið óskaplega var það fallegt. Fullt tungl og örlítil skýjaslæða sem vafði sér mjúklega í kringum það. Birtan var þvílík að mig langaði mest til að geta lagst einhvers staðar á bakið, horft upp í himininn og bara verið til. Minnti mig á það þegar við vorum að ganga upp í Fálkafell, á leiðinni í skátaútilegu, fyrir mörgum árum síðan. Þetta var að kvöldlagi, það var töluvert frost og stjörnubjartur himinn. Við lögðumst á bakið í snjóinn og horfðum á stjörnurnar, gott ef við gerðum ekki engla í snjóinn líka.

Þau eru svo mikils virði þessi andartök þar sem við erum bara til - erum meðvituð um fegurðina allt í kringum okkur - og í smá stund eru engin vandamál, ekkert stress, bara hrein ánægja með lífið og tilveruna.

P.S. Smá væmni í gangi í dag, er það ekki allt í lagi stundum?

Engin ummæli: