fimmtudagur, 13. janúar 2005

Einum kafla

í lífi mínu lýkur senn. Ég er ekki að fara að skilja við kallinn, ekki að flytja, ekki.. Nei, hið sanna er að við Bryndís höfum tekið þá ákvörðun að loka sjoppunni, þ.e. Innan handar sf. Úthaldið er búið og þrátt fyrir skárri (aldrei góða) verkefnastöðu inn á milli þá viljum við ekki sætta okkur við það lengur að geta ekki greitt okkur laun. Höfðum gefið okkur ákveðnar forsendur fyrir rekstrinum og þar sem þær hafa ekki staðist hlaut að koma að endalokum hjá okkur. Ég segi það ekki, ætli við höldum ekki fyrirtækisnafninu + VSK númerinu aðeins lengur (ef eitthvað bitastætt skyldi reka á fjörur okkar) en líklega segjum við upp húsnæðinu hjá Frumkvöðlasetrinu bráðlega.

Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja svona ákvörðunum en ég er þeirrar skoðunar að öll reynsla sem við öðlumst í lífinu geti gagnast okkur, svo hver veit, kannski eitthvað frábært komi út úr þessu síðar meir. Já, það var lagið Pollýanna mín! Ég hef auðvitað vinnu fram á vorið við að kenna en hvað síðan tekur við - tja - hef ekki hugmynd.

Hér hefur verið fremur kalt í dag, ég hef svona rétt fundið fyrir því þegar ég hef skreiðst inn og út úr bílnum en þau undur og stórmerki gerðust í dag að Ísak samþykkti að fara í ullarpeysu í fjallið, þannig að meira að segja hann hefur gert sér grein fyrir kuldanum. Hann fór á brettanámskeið með tveimur vinum sínum, bræðrunum Jóni Stefáni og Patreki, og kom aldeilis sæll og glaður heim aftur.

Fleira er ekki í fréttum að sinni...

Engin ummæli: