laugardagur, 22. janúar 2005

Hef varla haft

tíma til að blogga undandarið. Við Bryndís vorum að ljúka síðasta verkefninu okkar hjá Innan handar og þegar ég kom heim eftir vinnu þurfti ég að fara að undirbúa mig fyrir kennsluna. Suma kafla á ég náttúrulega frá í fyrra en samt vil ég vera pottþétt á þessu, les kaflann í bókinni aftur, fer yfir glærurnar frá í fyrra og breyti einhverju + reyni að taka með nýleg dæmi sem ég sæki t.d. í dagblöðin. Hef einhvern veginn ekki haft orku í það að blogga líka enda lítið annað að gerast en vinna.

En mikið sem það verður skrítið að koma á skrifstofuna á mánudaginn (við ætlum að halda henni út mánuðinn) og vita að þetta er búið hjá okkur Bryndísi. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ekki gengið sem skyldi þá hefur okkar samstarf gengið mjög vel og ég er ansi hrædd um að ég eigi eftir að sakna þess að geta ekki rabbað við hana. Svo er ég auðvitað byrjuð að velta því fyrir mér hvað ég á að taka mér fyrir hendur í vor þegar kennslan er búin - en ætli sé ekki bara best að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og treysta því að eitthvað dúkki upp.

Er annars búin að vera á fullu í tiltekt og húsverkum í dag, með þeirri undantekningu reyndar að sitja við tölvuna hátt í tvo tíma og leita að hótelum í Orlando. Það þrengir úrvalið töluvert að vera fimm saman og mér tókst ekki að finna neitt sem ég féll fyrir. Við erum farin að hlakka mikið til að komast í vetrarfrí, það verður gaman að prófa þetta einu sinni. Við höfum nefnilega talað um það í mörg ár (alveg síðan við bjuggum í Tromsö fyrir 10-12 árum síðan) að fara í vetrarfrí og loksins er komið að því. Valur á líka mjög erfitt með að fara til útlanda á sumrin - sá tími ársins er helgaður veiði!

Engin ummæli: