laugardagur, 29. janúar 2005

Enn meira rok

Ég er nú eiginlega að verða hálf þreytt á þessu endalausa roki. Var alltaf að vakna s.l. nótt þegar verstu hviðurnar dundu á svefnherbergisglugganum okkar og í morgun sáum við trjátoppa og greinar af lerkitrjám úr garðinum fyrir ofan okkur liggja eins og hráviði á leikvellinum sem er á milli húsanna. Í morgun var ég svo að kenna fjarnemum og tvær konur frá Dalvík sem sátu tímann sögðu mér að flutningabíll með tengivagn hefði oltið í morgun hér úti á hálsinum. Um tvöleytið datt rokið aðeins niður og ég var voða glöð en svo fór allt á fullt aftur og þá fylgdi mígandi rigning í kaupbæti. Það væri kannski bara betra að vera úti í stað þess að vera inni í húsi og hlusta á endalaust gnauðið í vindinum.

Það er frekar fyndið hvað húsverkin fylgja alltaf helgunum. Ég var reyndar löt í dag og gerði lítið nema þvo þvott og setja reikninga í möppur. Já og laga til í tölvupóstinum mínum. Það er að verða gjörsamlega óþolandi hvað ég fæ mikinn ruslpóst og þó ég reyni að eyða honum samstundis þá verður alltaf eitthvað eftir. Svo er ég líka áskrifandi að hinum og þessum fréttabréfum, ferðatilboðum o.s.frv. og stundum bara hleðst þetta allt saman upp án þess að ég fái nokkuð við ráðið. Var örugglega hátt í klukkutíma í dag að laga til og henda - en það var góð tilfinning þegar það var búið. Vá, er allt í einu að fatta hvað ég fæ alltaf mikið kikk út úr því að henda dóti! Hvaða sjúkdómi skyldi maður vera haldinn þegar maður fær svona mikið út úr því að henda einhverju? Spurning hvað Freud gamli hefði sagt við þessu?

Engin ummæli: