þriðjudagur, 11. janúar 2005

Jamm og jæja,

ótal verkefni sem bíða og mig langar helst að leggjast upp í sófa með góða bók. Valur var "sendur" upp í fjall á skíði en hann er öllu duglegri en ég að nýta sér þetta frábæra útivistarsvæði hér rétt við bæjardyrnar. Ég hef í rauninni aldrei kunnað á skíði og ætli minnimáttarkenndin sé ekki bara að drepa mig í brekkunum. Svo þoli ég illa kuldann, hef síðstu árin haft óskaplega mikið að gera frá áramótum fram á vor - já, ég hef ótal afsakanir fyrir því að fara ekki á skíði. Kannski ég ætti nú að drífa mig einu sinni og athuga hvort það kveikir eitthvað í mér? Ekki vantar mig græjurnar, Valur hefur séð fyrir því.

Fyrir mörgum, mörgum árum síðan fórum við til Davos í Sviss en þar var haldið námskeið fyrir skurðlækna - með skíðaívafi. Og ef ég á að vera hreinskilin þá fannst mér mjög gaman, frábært að geta rennt sér marga kílómetra án þess að þurfa að fara í lyftu. Svo var sól og gott veður allan tímann. En þrátt fyrir þessa góðu ferð fæ ég kvíðahnút í magann í hvert skipti sem Valur nefnir þá löngun sína að fara aftur í skíðaferð til útlanda. Stakk jafnvel upp á því við hann um daginn að hann gæti farið með Andra með sér, þetta yrði svona feðgaferð. En þá er Andri auðvitað á bretti en Valur á skíðum svo honum fannst að það myndi ekki alveg ganga. Já, margt er mannsins bölið....

Engin ummæli: