Nú var ég að reyna að hringja í Hrefnu á Skype-inu en hún svaraði ekki. Við ætluðum að óska henni til hamingju með frábæra einkunn í B.Sc. ritgerðinni, sem hún var að klára þegar við mamma vorum í Danmörku um daginn. Hrefna var farin að hafa smá áhyggjur af því hver árangurinn yrði því leiðbeinandinn var víst lítið fyrir að hrósa og hafði sagt fátt jákvætt - en svo fékk hún hvorki meira né minna en 12 sem er hæsta einkunn! Og nú er ég búin að opinbera það hérna á blogginu og vona að hún skammi mig ekki fyrir það...
Í morgun hefur Valur spilað Megas á vínylplötu sem Kiddi færði honum, og hefur mörg orð um orðsnilli skáldsins. Svo liggur leið hans brátt út í garð þar sem hann heldur áfram við vorverkin. Vorverkin mín áttu eiginlega að vera þau að þvo garðhúsgögnin + bera olíu á þau + kaupa nýjar sessur í stólana - en ég er ekki búin að gera neitt af þessu. Er samt búin að setja sumarblóm í pottana fyrir framan útidyrnar, sem er nú afrek fyrir sig :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli