fimmtudagur, 21. maí 2009

Fyrst ofan í sundlaugina í morgun

Eins og ég hef örugglega minnst á áður þá hefur sundlaugin undanfarið ekki opnað fyrr en kl. 10 á morgnana um helgar. Þannig að það kom mér mikið á óvar þegar auglýst var að í dag ætti að opna klukkan níu. Lét ég ekki segja mér það tvisvar og var mætt á svæðið ca. eina mínútu yfir. Og afrekaði sem sagt að verða fyrst til að stinga mér (hm, ekki satt, ég er hætt að stinga mér...) ofan í laugina. Kona sem ég hitti sagði mér að það hefðu verið hávær mótmæli fyrir utan sundlaugina síðasta laugardagsmorgun. Þá hefði verið sól og gott veður og margir verið mættir löngu fyrir klukkan tíu. Fólk sem beið fyrir utan eftir að það opnaði, fór að hrópa og kalla fúkyrði s.s. vanhæf bæjarstjórn ofl. Já, það eru bara "byltingar" víða um land þessa dagana.

Nú var ég að reyna að hringja í Hrefnu á Skype-inu en hún svaraði ekki. Við ætluðum að óska henni til hamingju með frábæra einkunn í B.Sc. ritgerðinni, sem hún var að klára þegar við mamma vorum í Danmörku um daginn. Hrefna var farin að hafa smá áhyggjur af því hver árangurinn yrði því leiðbeinandinn var víst lítið fyrir að hrósa og hafði sagt fátt jákvætt - en svo fékk hún hvorki meira né minna en 12 sem er hæsta einkunn! Og nú er ég búin að opinbera það hérna á blogginu og vona að hún skammi mig ekki fyrir það...

Í morgun hefur Valur spilað Megas á vínylplötu sem Kiddi færði honum, og hefur mörg orð um orðsnilli skáldsins. Svo liggur leið hans brátt út í garð þar sem hann heldur áfram við vorverkin. Vorverkin mín áttu eiginlega að vera þau að þvo garðhúsgögnin + bera olíu á þau + kaupa nýjar sessur í stólana - en ég er ekki búin að gera neitt af þessu. Er samt búin að setja sumarblóm í pottana fyrir framan útidyrnar, sem er nú afrek fyrir sig :-)

Engin ummæli: