laugardagur, 16. maí 2009

Varúð - vælublogg!

Já ég ætlaði sem sagt að setjast fyrir framan tölvuna og fá smá útrás fyrir leiða og pirring á tvennu sem er að gera mig brjálaða þessa dagana. Annars vegar er það vefjagigtin og hins vegar eru það afleiðingar brjósklossins frá því í fyrra. En svo er ég bara eitthvað svo tóm og veit ekki hvernig ég á að orða hlutina.

Aðalvandamálið er eiginlega að mér tekst ekki að halda haus þegar ég er að drepast úr verkjum í skrokknum og þreytan er að yfirbuga mig. Það er að segja, ég verð hálf þunglynd af þessu öllu saman og tekst ekki að hrista það af mér. Og það dugar ekki til að hugsa sem svo að ég hafi það nú ekki svo slæmt, það sé fullt af fólki sem hefur það miklu verra, mér finnst ástandið á mér alveg jafn ömurlegt fyrir því.

Ég hitti konu um daginn sem hefur það svipað að sumu leyti, þ.e. hún fékk líka brjósklos og fór í aðgerð og er búin að vera með ómögulegan fót síðan. Hún hefur það reyndar verra en ég, getur hreyft sig ennþá minna. Ég get þó synt og gengið svolítið. En hún getur ekki einu sinni synt. Báðar eigum við erfitt með brekkur. Og báðar eigum við erfitt með að sætta okkur við ástandið. Hún skammast sín líka fyrir að vera að vorkenna sjálfri sér þegar svo margir aðrir sem hefðu það verra.

En það sem er erfitt í þessu öllu saman held ég, er að horfast í augu við að maður er ekki sama persóna eins og maður vill vera. Maður hefur í höfðinu ákveðna mynd af sjálfum sér og sú ímynd stemmir ekki við manneskjuna sem maður er í raun. Þó að ég væri t.d. ekki nein brjáluð íþróttamannseskja sem ung þá hafði ég samt þá ímynd af sjálfri mér að ég gæti gert flest. Í vinnunni í Garðræktinni hafði ég gaman af því að sýna að ég gæti lyft 50 kg. áburðarpokum og borið þunga steina og grasþökurúllur, svo dæmi sé tekið. Sem krakki hafði ég afskaplega gaman af því að hlaupa og hljóp stundum í búðina t.d. í stað þess að ganga, bara af því það var svo skemmtilegt. Að vísu var ég hrakfallabálkur og var sífellt að togna á fæti og svoleiðis, svo að þegar nálgaðist fullorðinsár var ég kannski ekki mikið að hlaupa eða ganga á fjöll, en ég gat þó tekið til hendinni án þess að vera örmagna af þreytu eða fá verki í allan skrokkinn á eftir. Núna get ég ekki gert neitt framyfir það hefðbundna án þess að þurfa að borga fyrir það sama dag eða daginn eftir.

"Saved by the bell" - ekki man ég hvaðan þessi texti er kominn, en sem sagt, ég get víst ekki vælt meira í bili því Valur kallar og segir að ef ég vilji fá salat með matnum þá þurfi ég að búa það til núna. Þannig að ég er farin að gera salat og hætt að væla!

Engin ummæli: