miðvikudagur, 6. maí 2009

Þá er hin ágætasta Danmerkurferð að baki

og allt gekk eins og í sögu. Þetta var náttúrulega svolítið mikið ferðalag, svona "planes, trains and automobiles" en það var voða gaman að hitta alla. Hrefnu mína, Önnu systur, Kjell-Einar og Sigurð, Palla og Jönu, og krakkana hans Palla + Birte, fyrrverandi konuna hans. Það eina sem hefði mátt vera betra var veðrið en það var úrhelllis rigning á sunnudeginum þegar fermingarveislan var haldin.

En ekki skorti nú veitingar í veislunni og var allt ljómandi gott. Enda tók svo langan tíma að borða + vera með skemmtiatriði að veislan stóð í 7 tíma, hvorki meira né minna. Það er að segja, við fórum heim eftir 7 tíma en margir voru lengur. Það hafði verið skipulagður leikur í lok dags en sökum rigningarinnar varð ekkert af honum. Eftir leikinn átti svo að bjóða uppá grillaðar pylsur þannig að Palli var með 120 pylsur í skottinu á bílnum sem hann þurfti svo bara að keyra heim aftur. En já maturinn var nú ekkert slor, það var túnfiskpaté með salati í forrétt, lamba-, kalkúna-, og kálfakjöt + alls skyns meðlæti í aðalrétt, súkkulaðikaka, súkkulaðimús, jarðarberja- og rabbarbarabaka, frómas og heimagerður ís í eftirrétt. Þar á eftir var svo kaffi, kransakaka og nammi. Púff, maður náttúrulega tróð í sig... en mér leið samt ágætlega alveg þar til ég fór ferð nr. 2 að eftirréttahlaðborðinu, það var too much!

Á mánudaginn vöknuðum við svo kl. sjö (fimm að íslenskum tíma...) og lögðum af stað til Vejle korter í átta en það tekur ca. 45 mín. að keyra til Vejle. Palli ók okkur þangað til að ná lestinni til Köben. Lestarferðin tók um 3 tíma og svo tók við 2ja tíma bið á flugvellinum + 3ja tíma flugferð til Íslands. Þar beið Ásgrímur eftir mömmu en ég tók rútuna á BSÍ og leigubíl á flugvöllinn þar sem ég beið í rúman klukkutíma eftir flugi norður. Og það var nú voða gott að koma heim og leggjast í sitt eigið rúm um kvöldið. Ég var eitthvað svo upprifin í ferðalaginu að ég svaf ansi lítið á næturnar og er þar af leiðandi búin að sofa eins og steinn fyrstu tvær næturnar heima.

En sem betur fer var ég í fríi í gær frá vinnunni og gat hvílt mig - og lesið bók... Anna systir lét mig nefnilega fá bók nr. 2 eftir Stieg Larsson, Jenten som lekte med ilden, á sunnudagskvöldið og ég byrjaði að lesa hana á mánudagsmorguninn í lestinni. En átti afskaplega erfitt með að leggja hana frá mér fyrr en hún var búin, enda mjög spennandi. En ég kláraði hana í gær, rétt fyrir kvöldmat, þannig að nú get ég farið að sinna heimilisstörfum og öðru sem ég mátti ekki vera að í gær sökum lestrarfíknar :-)

Engin ummæli: