mánudagur, 9. febrúar 2009

Síðdegi


Síðdegi, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þá er helgin að baki og hefðbundin vinnuvika framundan. Ég er samt ekki að fara að vinna fyrr en klukkan tvö og er að bræða það með mér hvort ég á að fá mér smá kríublund áður, eða ekki... Er búin að vera óttalega syfjuð í morgun enda var dagskrá helgarinnar óvenjumikil. Matarboð á föstudagskvöldi, vinna á laugardegi og þorrablót á laugardagskvöldinu. Í gærmorgun fengum við svo vinafólk í morgunkaffi og vorum mjög ánægð með að ná að hitta þau aðeins. Seinni partinn fórum við Valur svo út að taka myndir og vorum örugglega tvo tíma úti í frostinu, enda var mér orðið ansi kalt á tánum og þá sérstaklega á fingrunum. Það var ótrúlega sárt þegar þegar þeir fóru að þiðna aftur. En það var hressandi að vera úti og ekki hægt að kvarta yfir skorti á myndefnum. Himininn var sérstaklega fallega blár þegar hann bar við hvítan snjóinn og endurspeglaðist blái liturinn í sjónum. Ekki spillti fyrir að tunglinu fannst ástæða til að spóka sig í góða veðrinu. Ég tók hátt í tvöhundruð myndir, en nú bar svo við að nærri engin þeirra heppnaðist eins nógu vel. EIn ástæða þess var sú að ég var að prófa að fókusera sjálf í staðinn fyrir að nota sjálfvirka fókus vélarinnar, og ég er greinilega farin að sjá illa því flestar þeirra mynda urðu ansi hreint þokukenndar... ;-)

Engin ummæli: