fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Rólegheitadagur

Ég var að vinna seinni partinn í dag og þar af leiðandi í fríi í morgun. Byrjaði á mínu venjubundna morgunsundi en átti tíma hjá sjúkraþjálfara klukkan tíu. Um hálftíu var hringt og tíminn afboðaður. Er það í þriðja sinn sem það gerist, fyrst vegna þess að maðurinn þurfti að fara í foreldraviðtal vegna barna sinna og svo vegna veikinda í tvö seinni skiptin. Svona getur þetta raðaðast niður.
En ég fór í staðinn á bókasafnið og dundaði mér þar í rúman klukkutíma. Á Amtscafé var verið að elda hádegismat og matarilmurinn svo mikill að það endaði með því að ég keypti mér mat og settist þar niður með kjúklingarétt og tímarit. Það var mjög gaman að fylgjast með samsetningu gestanna sem komu þangað til að borða hádegismat, allt frá verkamönnum í bláum samfestingum til starfsmanna verðbréfamiðlunar í stífpressuðum jakkafötum. Þverskurður af þjóðfélaginu sýndist mér.
Þegar ég kom heim aftur lagðist ég uppí sófa með slökunartónlist í eyrunum og steinsofnaði (hef átt í smá vandræðum með svefninn undanfarið og því orðin langþreytt). Það var nú samt ekki á dagskránni að sofna svona rétt fyrir vinnu, svo ég vaknaði með andfælum og ákvað að skella í mig tebolla til að hressa mig. Þá var teið svo heitt og ég drakk það svo hratt að mér snarhitnaði allri og þurfti á endanum að rífa mig úr að ofan til að kæla mig niður.
Í vinnunni var svo frekar rólegt, a.m.k. það rólegt að ekki var ástæða til að hafa tvo starfsmenn á svæðinu, þannig að ég dreif mig bara snemma heim. Frammi í eldhúsi stússast Valur eins og hans er von og vísa. Heimatilbúin pítsa er á matseðlinum í kvöld. Og prinsessan ég mun víst ekki taka neinn þátt í matargerðinni, nema búa til salatið með pítsunni. Þannig að nú er ég farin að kíkja á allar bækurnar og tímaritin sem ég tók á bókasafninu. Þvílíkur munur að mega velja eins margar bækur og maður vill - það er af sem áður var þegar mátti bara taka fjórar bækur að láni í hvert sinn.

Engin ummæli: