laugardagur, 21. febrúar 2009

Ef þið sjáið konu á bláum upphækkuðum landrover jeppa

sem gefur aldrei stefnuljós, þá er það væntanlega ég. Eins og þessi blessaður jeppi er nú mikil dásemd að keyra (smá djók) þá hefur hann þennan eina galla. Það er alveg sama hvað maður rembist við að gefa stefnuljós, annað hvort kemur það hreint ekki (festist ekki inni) eða ef það kemur þá dettur það af um leið og maður byrjar að snúa stýrinu í þá átt sem ætlunin er að beygja. Nú eða bara ef maður ekur yfir í smá ójöfnu.

Annars var ég á leið í sund áðan (á jeppanum, þar af leiðandi þessar stefnuljósahugleiðingar) en þegar þangað kom voru bara tveir bílar á bílastæðinu. Nokkuð sem mér fannst ekki lofa góðu. Sá ég svo konu koma gangandi í átt til mín og dokaði við til að tala við hana. Þetta var þá systir gamallar vinkonu minnar og hún tjáði mér að nýjar reglur um opnunartíma væru á hurðinni. Jamm, ég hélt að ég vissi það nú... hef bara horft á þennan miða í þónokkurn tíma núna - en greinilega án þess að fá með mér það sem máli skipti. Mér fannst nefnilega eins og verið væri að breyta kvöldopnuninni og spáði ekki mikið í það þar sem ég fer aldrei í sund á kvöldin. En sem sagt, hér koma smá upplýsingar af síðu Akureyrarstofu

"Opnunartími Sundlaugar Akureyrar: Virkir dagar frá kl. 6.45-21.00. Um helgar frá kl. 8.00-18.30. Frá 16. febrúar til 1. maí er opið frá kl. 10.00 um helgar."

Og þá vitið þið það!

Engin ummæli: