Kona 1: Hverja sá ég í svona peysu í gær?
Kona 2: Mig, ég var líka í henni í gær.
Kona 1: Nei, það varst ekki þú, heldur einhver önnur.
Kona 2: Ég var víst í þessari peysu í gær...
Kona 1: Já, það getur vel verið en ég sá þig ekki í gær. Man að ég sá einhverja aðra konu í eins peysu en get ómögulega munað hver það var.
Þegar hér var komið sögu hafði þriðja konan birst í klefanum og blandaði sér í umræðurnar.
Kona 3: Var það kannski einhver á kóræfingu í gærkvöldi, Sigga kannski?
Kona 1: Nei, það var ekki Sigga, hún var í drapplitaðri peysu.
Kona 3: Hvað með Gunnu? Var það kannski hún?
Kona 1: Nei, það var ekki Gunna, ég man alveg eftir því í hvernig peysu hún var því hún var í svo fallegu vesti utanyfir. Kannski var það Stína?
Kona 3: Það var ekki Stína, ég man í hverju hún var því mér fannst peysan hennar svo skrýtin eitthvað...
Þegar hér var komið sögu var ég nánast sprungin úr hlátri og blandaði mér í umræðurnar.
Ég: Það er óborganlegt að hlusta á ykkur, þetta er greinilega ástæðan fyrir því að mér er ekki sama hvernig ég lít út þegar ég fer út fyrir hússins dyr.
Þær fóru að hlægja og fóru í framhaldinu að tala um það þegar þær voru litlar og mæður þeirra sögðu þeim að þær skyldu alltaf vera í hreinum sokkum og nærbuxum þegar þær færu út, því fólk gæti hvenær sem er lent í slysi og þá væri skemmtilegra að vera snyrtilegur ef maður endaði uppi á sjúkrahúsi.
Hver kannast ekki við að hafa verið innprentað eitthvað í þessa áttina? Hugsa þó að sjúkrahússtarfsfólk hafi um mikilvægari hluti að huga heldur en nærbuxur og sokka þegar það tekur á móti veikum og slösuðum...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli