þriðjudagur, 13. febrúar 2007

Öskudagurinn nálgast

og ég er í nettu kvíðakasti.

Öskudegi fylgir nefnilega það ógurlega vandamál að redda öskudagsbúningi á yngri soninn. Mig skortir hugmyndaflug þegar að öskudagsbúningum kemur og það kom sér afskaplega vel að geta keypt tilbúinn búning fyrir þremur (fjórum?) árum, sem Ísak hefur verið í síðan. Það skal tekið fram að hann vildi sjálfur nýta sama búninginn svona lengi (þjáist sennilega af sama hugmyndaskorti og mamman á þessu sviði) en nú langar hann að skipta.

Honum datt í hug að hann gæti verið Drakúla greifi og hafði séð slíkan búning auglýstan. Þannig að við fórum í einu leikfangaverslun bæjarins í gær og þar kom fljótt í ljós að sá búningur var aðeins til í stærð 7-9 ára. Þar sem styttist óðfluga í 12 ára afmælið vildi ég meina að stærðin væri ekki rétt. Sonurinn vildi hins vegar meina að hann væri smávaxinn eftir aldri. Ekki vorum við sammála um það, ég taldi að hann væri í meðallagi stór.

Í framhaldinu stakk ég uppá því að hann gæti leikið gamlan karl og hugsaði með sjálfri mér að við hlytum að geta fundið einhver föt heima sem væri hægt að klæða hann í. Fundum gerviskegg og örkuðum út úr búðinni.

Nú hefði málið átt að vera nokkurn veginn leyst, en allt í einu fór ég að efast um að við ættum nægilegan efnivið í föt á gamlan karl - hér á bæ eru öll föt gefin í Rauða krossinn jafnóðum og hætt er að nota þau. Þá mundi ég að það fást einnig öskudagsbúningar í Hagkaup og stakk uppá því að við færum líka þangað. Ekki leist nú syninum á þá hugmynd, var búin að fá nóg af bæjarferðinni eftir tíu mínútna viðdvöl í dótabúðinni. Engu að síður dró ég hann nauðugan með mér inn í Hagkaup þar sem í ljós kom að ekki voru til neinir búningar sem honum þóknuðust.

Þessari öskudags-innkaupaferð lauk með því að drengurinn var orðinn fúll (hann hafði jú ekki viljað fara í aðra búð og ferðin þangað var tilgangslaus) og mamman var orðin fúl (hún var jú að reyna að bjarga þessu búningamáli fyrir hann, ekki að drösla honum milli verslana að gamni sínu).

Já, svona fór um sjóferð þá, og ég get haldið áfram að kvíða fyrir öskudeginum enn um sinn, eða a.m.k. þar til búið er að redda öskudagsbúningi...

Ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því ennþá - þá á ég það til að stressa mig ótæpilega upp yfir hlutum sem yfirleitt leysast af sjálfu sér - eða með öðrum orðum - ég er snillingur í því að flækja líf mitt að óþörfu!

Engin ummæli: