Eða frekar innrásin frá Reykjavík. Hver reykvíska verslunin á fætur annarri er að opna útibú hér á Akureyri þessa dagana og ef áfram heldur sem horfir þá verða bráðum afskaplega fáar verslanir hér í eigu heimamanna. Í þessum mánuði hafa Heimilistæki, Tengi, Eirvík og Janus búðin birst hér norðan heiða, Egill Árnason opnar innan tíðar og hið sama gerir Hamborgarabúlla Tómasar og Nings, ekki er langt síðan Olympia kom á Glerártorg og um daginn var hringt í mig og spurt hvort ég hefði áhuga á verslunarstjórastarfi í ónefndri verslun sem á að opna innan tíðar hér í bænum. Ég er örugglega að gleyma einhverjum.... Ef ég hugsa málið enn frekar þá held ég að það séu bara þrjár verslanir á Glerártorgi í eigu heimamanna/kvenna og verður spennandi að sjá hvernig samsetningin verður þegar Glerártorg verður stækkað. Auðvitað eru kostir fyrir okkur Akureyringa að fá aukið vöruúrval og einhverjir fá jú vinnu í þessum verslunum. En sé einhver hagnaður af rekstrinum fer hann suður yfir heiðar í vasa sinna reykvísku eigenda og skattar eru greiddir í lögheimilis- sveitarfélagi fyrirtækisins (Reykjavík). Einnig verður mun erfiðara fyrir ýmis íþróttafélög og félagasamtök að fá styrki til sinnar starfsemi. Ég sannreyndi það einu sinni þegar ég tók að mér ásamt annarri að safna auglýsingum fyrir íþróttafélag hér í bænum. Fáir framkvæmdastjórar / verslunarstjórar í reykvísku útibúunum höfðu leyfi til að veita styrki. Allt slíkt þurfti að fara í gegnum höfuðstöðvarnar og þar sáu menn ekki ástæðu til að eyða peningum í slíkt. Jamm og jæja, nóg um það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli