fimmtudagur, 14. mars 2013

Jamm og jæja ... það er stuð

Ég sit og rembist eins og rjúpan við staurinn (hvaðan skyldi þetta orðtak vera komið?) við að skrifa nokkrar línur í sögunni minni. Fyrirfram hafði ég ákveðið að skrifa bara hráan texta og leyfa þessu að flæða ... en festist alltaf í því að lesa yfir það sem ég hef verið að skrifa og reyna að endurbæta einstakar setningar. Þarf að sleppa takinu ... þetta á bara að vera hrátt fyrst og síðan er hægt að lesa yfir síða og fínpússa. - Sleppa takinu já ... getur verið erfitt fyrir manneskju sem vill helst hafa stjórn á kringumstæðum.

Annars er búið að fresta námskeiðinu sem átti að vera á laugardaginn, um eina viku, þannig að þá hef ég aðeins rýmri frest til að vinna í textanum mínum. Sem er ágætt því ég hef ekki mikið úthald í tölvuvinnu þessa dagana.

Lífið gengur að öðru leyti sinn vanagang. Ég átti frídag í gær og svaf bara út hafði það náðugt. Fór í sund um tvöleytið, sem var frekar fyndið því þá er allt annað fólk í sundi heldur en á morgnana. Það var stór hópur af mæðrum með ungabörn að koma úr ungbarnasundi og sum grétu, önnur hjöluðu og eitt var að fá að drekka hjá mömmu sinni. Því miður sat sú móðir akkúrat fyrir framan skápinn minn þegar ég kom í búningsklefann og ég þurfti að biðja hana að færa sig. Við það sleppti barnið brjóstinu og missti allan áhuga á frekari næringu. Það var miklu skemmtilegra að horfa í kringum sig, enda nóg að gerast.

Það rifjaðist upp fyrir mér að nú eru rúm 18 ár síðan ég var síðast með barn í ungbarnasundi, og ég nefndi það við konurnar. Þá var ein eldri kona sem sagði frá því að fyrir ca. þrjátíu árum síðan hefði hún farið í sund með 2ja mánaða gamla dóttur sína, og í kjölfarið hefði þótt ástæða til að ræða málið á sérstökum kvenfélagsfundi í sveitinni. Hún þótti víst frekar skrítin skrúfa en á þessum tíma bjó hún í Hornafirði og ungbarnasund var ekki komið í tísku. Já tímarnir breytast og mennirnir með!

Aðalfrétt dagsins er nú samt sú að Ísak minn á afmæli í dag, er orðinn 18 ára. Hugsa sér.


Þarna eru þeir feðgar að fara út að labba einhvern tímann um jólaleytið.

Engin ummæli: