Í fréttum er þetta helst ...
- Mér tókst að klára að skrifa 1. kaflann í hugsanlegri sögu fyrir námskeiðið. Ég var komin með fyrstu málsgreinina fyrir dálitlu síðan en svo reyndist það þrautin þyngri að halda áfram. En já ég ákvað að vinna með hugmyndina sem sat eftir í mér að loknu námskeiðinu hjá Þorvaldi Þorsteinssyni hér um árið. Mér fannst hann eiginlega eiga það inni hjá mér - ef svo má að orði komast. Stóra spurningin er svo hvort ég geri meira með þetta efni. Ég er í raun með hugmyndir sem gætu ábyggilega dugað í heila bók, ef ég spila rétt úr þeim, en þá er það spurning um að gefa sér tíma og hvort maður hefur það úthald sem þarf til að skrifa heila bók. En það væri þó ábyggilega ágætis æfing, þó ekki væri annað.
- Ég legg núna höfuðáherslu á að fara út að ganga, a.m.k. einu sinni á dag, helst tvisvar. Er búin að taka aftur fram Garmin hlaupaúrið og mæli vegalengdina sem ég geng, meðalhraða og púls. Mér finnst það gagnast mér vel að halda utan um hreyfinguna á þennan hátt, að minnsta kosti í bili.
- Ljósmyndasýningu okkar ÁLFkvenna í Safnaðarheimilinu lýkur í dag. Það gæti verið að þessi sama sýning verði sett upp hjá Læknastofum Akureyrar í haust eða næsta vetur en það kemur allt í ljós.
- Við Valur létum prenta nokkrar myndir á stóran striga þegar það var á tilboði hjá einhverju fyrirtæki í Reykjavík fyrir jólin. Svo þegar myndirnar voru komnar í hús þá lenti ég í hálfgerðum vandræðum með það hvað ég ætti að gera við mínar tvær myndir. Önnur þeirra er nú komin uppá vegg hér í vinnuherberginu mínu en hin uppá vegg bakvið afgreiðsluborðið í Pottum og prikum. Þar er stór appelsínugulur veggur og myndin, sem er svarthvít, passar ágætlega þar.
- Það er eiginlega markmið hjá mér núna að vera minna í tölvu og nota tímann heldur í hluti eins og útiveru og prjónaskap svo dæmi séu nefnd. Ég hef hangið nokkuð mikið í tölvunni þegar ég er svo þreytt að ég hef ekki orku í að gera neitt gáfulegt. Hins vegar er tölvan mín sprungin (full af ljósmyndum) og ég þarf að eyða einhverjum tíma í að færa allar ljósmyndirnar á útstöð (disk station) sem Egil hennar Hrefnu hjálpaði okkur að setja upp um jólin. Nú og ef ég ætla mér að skrifa meira þá reyndar geri ég það í tölvu líka ... En já já það er alltaf gott að hafa fögur fyrirheit.
- Ég er að horfa á dagatal hér á skrifborðinu mínu sem Anna systir sendi okkur um jólin. Það er svo ótrúlega flott. Allar myndirnar eru málaðar af fólki sem málar með munninum, svona eins og Edda Heiðrún Backman gerir. Mér finnst það með ólíkindum hvað er hægt að ná mikilli tækni á þennan hátt, svo ekki sé meira sagt.
- Hvað síþreytuna mína snertir þá hresstist ég aðeins um miðja síðustu viku og miðvikudagur og fimmtudagur voru allir í áttina. Síðan reyndar vaknaði ég mjög þreytt á föstudegi, en helgin hefur samt ekki verið algjörlega ónýt hjá mér eins og sú síðasta var. Sem sést best á því að ég fór tvisvar út að ganga í gær og skrifaði þennan bókarkafla.
- Jæja ætli þetta sé ekki orðið ágætt. Mig langar að enda þessa bloggfærslu á að benda á mjög skemmtilegt viðtal við hjónin í Kristnesi, þau Helga Þórsson og Beate Stormo. Þetta viðtal birtist í Kastljósi en ég sá það ekki þar, en það var einhver sem benti á það á facebook. Mér finnst svo frábært að sjá fólk sem er gera allt aðra hluti en margir aðrir og er ekki að eltast við að eiga nýjasta bílinn eða flottasta húsið. Hér er tengillinn á viðtalið.
Njótið dagsins :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli