sunnudagur, 24. mars 2013

Áhyggjur óþarfar - námskeiðið gekk vel




Tíminn í dag var mjög skemmtilegur. Það var fjallað um allar sögurnar og sögubrotinu mínu var bara vel tekið. Anna Heiða hvatti mig til þess að klára að skrifa bók og senda í næstu samkeppni um íslensku barnabókaverðlaunin. Ég var voða glöð að svona jákvæðar undirtektir, enda var ég búin að hafa dálítið fyrir þessu og leið vel með textann sem ég lét frá mér. Að minnsta kosti til að byrja með, hehe, eða þar til púkinn á öxlinni fór að lauma að mér efasemdum. Jamm og jæja, nú er námskeiðið hins vegar búið og framhaldið algjörlega undir sjálfri mér komið.

Ég var nú eiginlega alveg búin á því þegar ég kom heim en Valur gaf mér gott kaffi og ég hresstist nógu mikið til að geta farið út að ganga. Ég tók myndavélina með mér en tók að vísu ekki margar myndir. Sól sem myndaði endurkast í skítugum polli var samt pínu skemmtilegt viðfangsefni. Rakst óvænt á vinafólk okkar frá Tromsö og það yljar alltaf um hjartarætur að hitta gamla vini.

Valur eldaði dýrindis lambakjöt á teini (grillaði) í kvöldmatinn og svo horfðum við á Lewis og Hathaway á dönsku stöðinni. Þeir standa alltaf fyrir sínu.

Ég hef líka verið að vinna í því að koma ljósmyndunum mínum út af harða diskinum í tölvunni en það gengur hægt því þetta eru svo stórar skrár. Núna er ég t.d. að exportera tæplega 10 þúsund myndum úr Iphoto en ég notaði Iphoto í rúmt ár og hef greinilega verið nokkuð iðin við kolann í ljósmynduninni á því tímabili.

En já glöggir menn og konur taka ef til vill eftir því að þessi bloggfærsla er skrifuð á þeim tíma sólarhrings sem ég er venjulega steinsofandi. Ætli hugur minn hafi ekki enn verið að melta atburði dagsins, auk þess sem sögupersónur bönkuðu á dyrnar, og það var ekki séns að ég gæti sofnað þegar ég fór inn í rúm áðan. Gengur vonandi betur í næstu tilraun ;)

Engin ummæli: