fimmtudagur, 21. mars 2013

Gömlurnar ...


Já við Birta gamla þurftum nauðsynlega að leggja okkur aðeins áðan ;-) Þó ég væri þreytt þá var ég samt á hálfgerðum yfirsnúningi og náði ekki að slaka sérlega vel á. Þannig að ég fór að hamast í símanum mínum og tók þá m.a. þessa mynd af okkur gömlunum. Svo fannst mér myndin bara nokkuð skemmtileg og setti hana á facebook, já og ákvað að nota hana líka hér.

Það var eins og mig grunaði að ég yrði hálf lúin eftir gærdaginn. Samt var stress í mér út af ákveðnu máli og ég var vöknuð fyrir átta í morgun þó ég hefði í sjálfu sér getað sofið lengur. Þannig að eftir að hafa fengið mér sítrónuvatn fór ég út að ganga, einhvern tímann um hálfníu. Það er eins og mig sárvanti súrefni þessa dagana og ég drekk það gjörsamlega í mig þegar ég er úti að ganga. En samt er skrokkurinn og allt "kerfið" eitthvað skrítið, sem sést m.a. á því að eftir smá stund verð ég alveg ógurlega máttlaus og þreytt eitthvað. 

Í dag var ég með Garmin úrið á mér og hér má sjá hvað gerist eftir að ég er búin að ganga í smá stund. Hjartslátturinn snarlækkar og mér reiknast til að það sé ca. á þessum sama tímapunkti að ég verð svona máttlaus. Svo eftir ca. 10-15 mín. göngu kem ég heim og fer að undirbúa morgunmat. Meðan ég svo sit og borða  er púlsinn í kringum 70-80 en síðan eftir matinn þá er greinilegt að líkaminn þarf að erfiða við meltinguna því púlsinn hækkar töluvert og helst þannig á meðan ég þvæ mér um hárið, snyrti mig og klæði. Sem er greinilega mikið álag, hehe ;) Þegar ég skoðaði samskonar línurit frá því á sunnudagsmorguninn, þá hafði það sama gerst með hjartsláttinn, þ.e. hann snarféll þarna í byrjun gönguferðarinnar. Mig grunar að þetta sé ástæðan fyrir því að ég fæ svima og yfirliðs-tilfinningu í morguntímunum í leikfiminni. En já það er ótrúlegt hvað eitt stykki vefjagigt getur ruglað mikið í kerfinu hjá fólki.


Njótið dagsins :)

Engin ummæli: