Á fimmtudeginum þegar ég kom út þá var hann heima á hóteli og tók á móti mér en svo fórum við og fengum okkur að borða á grænmetisveitingastað þarna rétt hjá. Röltum svo aðeins um nágrennið en svo fór hann á ráðstefnuna en ég var bara í rólegheitum á meðan. Þar sem hótelið auglýsir voða flott að þar sé upphituð útisundlaug með útsýni yfir borgina datt mér í huga að prófa laugina. Hahaha, þetta var þá bara lítið stærra en íslenskir heitapottar en ekki alveg eins heitt vatnið, þannig að ekki gat ég nú synt mikið. En útsýnið var ágætt, sólin var að setjast og ég fór svo líka í sjóðandi heitt sauna. Um kvöldið borðuðum við Valur á alveg frábærum veitingastað á hótelinu. Allir réttirnir voru alveg meiriháttar góðir.
Á föstudeginum fór Valur á ráðstefnuna en ég fór á búðarráp. Var bara eitthvað svo ógurlega þreytt og illa fyrirkölluð framan af að gáfulegra hefði verið að halda bara áfram að sofa. En ég fékk nú samt á mig jakka, einhverja boli, 2 blússur og buxur. Já og eina peysu. Þetta var allt keypt í H&M nema jakkinn sem var keyptur í Vera Moda (minnir mig) og kostaði ákaflega lítið miðað við hvað hlutirnir kosta hér á landi. Svo kom Valur og við fengum okkur að borða og rápuðum svo aðeins meira í búðir. Hann fékk þessa fínu Ecco skó og þá var hann búinn að fá nóg en ég var aðeins lengur að skoða en fór svo líka heim á hótel. Um kvöldið borðuðum við á ítölskum veitingastað sem var því miður algjör túristastaður, þ.e. fjöldaframleiddur matur og fjölmörg borð. Til að kóróna það var maturinn vitlaust afgreiddur og þurfti að bíða dágóða stund eftir að fá réttan mat.
Laugardagurinn var svo heljarinnar labb-dagur frá morgni til kvölds og fórum við meðal annars í Gamla Stan en fannst lítið til koma. Þröngar göngugötur með túristabúllum og veitingastöðum í bland. Einstaka gallerí og hönnunarbúðir inn á milli. Svo ætluðum við að skoða ljósmyndasafn en eitthvað höfðum við nú misskilið bæklinginn því þetta var aðeins ein ljósmyndasýning en ekkert safn. Um kvöldið höfðum við ekki verið nógu forsjál að panta borð í tíma, svo við vorum orðin mjög svöng þegar við fórum að borða og fengum mat um hálf níu leytið um kvöldið. Þá bar svo við að ég var orðin eitthvað skrítin í maganum og hafði voða litla lyst. Og þegar við komum heim á hótel var mér orðið verulega illt og var greinilega alls ekki að melta matinn. Ældi og leið aðeins betur á eftir er var samt ekki góð. Náði að sofna aðeins en vaknaði um tvöleytið og var svona rosalega óglatt. Þannig að ég fór og ældi meira og leið þá betur á eftir. Náði svo að sofna um þrjúleytið og var nokkurn veginn í lagi þegar ég vaknaði. En alveg hrikalega þreytt, bæði eftir þetta ælu- og vökustand og eins eftir allt labbið deginum áður.
Það þýddi lítið að spá í það því eftir morgunmat var kominn tími til að pakka og fara svo út á flugvöll. Leigubíllinn þangað kostaði "aðeins" 600 sænskar kr. eða um 9 þúsund íslenskar, eins fáránlegt og það hljómar, en þetta er reyndar töluverður spotti. Hefði verið miklu ódýrara að fara með rútu en við klikkuðum á því.
Flugið heim gekk vel nema hvað ég fann ekki töskuna mína þegar ég ætlaði að taka hana af bandinu. Beið þar til allar töskur voru komnar og búið var að stoppa bandið en engin taska kom. Ég sá að það voru tvær aðrar litlar svartar töskur en þar sem þær líktust hvorug minni tösku þá skipti ég mér ekkert af þeim. Fyllti út skýrslu um týndan farangur og svo tókum við rútuna inn til BSÍ og þaðan leigubíl á flugvöllinn. Rúmum hálftíma fyrir flugið norður hringir síminn minn og kona spyr, án þess að kynna sig, "Ert þú með töskuna mína?". "Ég er ekki með neina tösku" segi ég. "Jú, þú hlýtur að hafa tekið mína tösku í misgripum" segir hún og ætlar ekki að gefa sig svona létt. Það tók nú smá tíma að koma henni í skilning um að sökin væri hennar en ekki mín og það eina sem hún sá í stöðunni var að senda mína tösku með leigubíl á flugvöllinn. Á minn kostnað að sjálfsögðu... Ég fór nú bara að hlægja því mér fannst það svo fyndið að ég ætti að borga fyrir hennar mistök en hugsaði sem svo að betra væri að fá töskuna heldur en ekki, svo ég sagði konunni að senda hana þá með leigubíl. Og taskan kom og við fórum norður í faðm drengjanna sem höfðu nú ekki saknað okkar neitt gífurlega... enda getað ráðið sér sjálfir í 4 daga án afskiptasamra foreldra ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli