Og nú ætla ég ekki að segja neitt um það hvað tíminn líður hratt... En afmælisbarnið svaf út í morgun og er svo búinn að panta skinkuhorn í kaffinu og heimatilbúna pítsu með kvöldmatnum, þannig að hann er í góðum gír.
Peysan frá Önnu var svo sannarlega ætluð mér og hafði verið prjónuð fyrir mig af því mér var alltaf svo kalt. Þetta er ullarpeysa og hlý og góð. Það er á dagskránni að fá Val til að taka mynd af mér í peysunni svo Anna geti nú fengið að sjá hvernig hún lítur út á mér. Það var nú hálf fyndið, ég fór í peysunni í vinnuna á fimmtudaginn og þá var kona sem var eitthvað svo óttalega svifasein og utan við sig þegar hún var að borga. Ástæðan var sú að hún var að horfa á peysuna og hugsa hvað hún væri flott :)
Ég skellti mér á námskeið í háskólanum í gær. Efnið var "hámörkun reiðufjár frá rekstri". Ég sá það nú strax og ég byrjaði að fletta möppunni með námskeiðsgögnunum að fæst þarna var nýtt fyrir mér. Og við Sunna erum held ég barasta að gera það sem við getum í þessum málum. En í framhaldinu fór ég að hugsa um það hvílíkt magn af upplýsingum maður innbyrðir í 3ja ára háskólanámi og það sem maður notar ekki fljótlega eftir útskrift fellur fljótt í gleymskunnar dá. En vissulega er þetta einhvers staðar í geymslu í heilanum á manni og rifjast upp ef maður kíkir aftur í bók.
Og bara svona í lokin... ég var að segja við Ísak í gær að ég væri loksins að losna við pestina sem ég hef núna haft hangandi yfir mér í rúman hálfan mánuð. Nema hvað, vaknar mín ekki í morgun með hálsbólguskít og slappleika. Þetta er ekki einleikið. Sérstaklega þegar haft er í huga að samkvæmt nýlegum blóðprufum er ég heilbrigðasta kona á Akureyri og þótt víðar væri leitað! Ég var orðin svo óskaplega leið á því að vera alltaf svona þreytt og þó ég vissi að þetta væri bara vefjagigtin að hrella mig þá var ég að vona að kannski væri ég blóðlítil eða eitthvað væri að mér sem hægt væri að lækna. Þannig að ég fékk Val til að skrifa uppá blóðprufu og niðurstaðan var sem sagt þessi. Öll blóðgildi voru innan eðlilegra marka og sumt, eins og t.d. kólesteról var í toppstandi.
En nú er ég farin að gera deig í skinkuhorn. Hafið það gott í dag.
laugardagur, 14. mars 2009
Ísak 14 ára í dag
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli