fimmtudagur, 15. janúar 2009

Hrakfallabálkur í dag

Eða þannig... Svo sem ekkert slæmt sem henti mig, bara svona samsafn af smáum óhöppum.

Dagurinn byrjaði á því að það brotnaði hjá mér tannfylling sem skildi eftir sig stórt skarð í viðkomandi jaxli - en engin tannpína fylgdi í kjölfarið því það er löngu búið að rótardrepa tönnina. Bara tannholdið sem er aumt.

Í vinnunni var vesen á tölvupóstinum og hafði enginn póstur farið frá okkur alla vikuna (en við vissum ekki neitt). Sunna skildi ekkert í því hvað ein pöntunin var lengi að berast en þegar hún hringdi í gær í heildsalann kom í ljós að hann hafði aldrei fengið póst frá okkur. Ég hringdi svo í dag í Símann og þá kom í ljós að allur póstur frá okkur hafði lent í "sóttkví" og verið stöðvaður af netþjóni Símans. Ástæðan er sú að fyrirtæki fá úthlutaða tilviljanavalda ip-tölu, þannig að í hvert sinn sem við kveikjum á routernum fáum við nýja ip-tölu. Það eitt og sér finnst mér stórfurðulegt. En við bætist að ip-talan sem við höfðum fengið úthlutað síðast hafði áður tilheyrt einverri tölvu sem annað hvort hafði verið vírussýkt eða verið að senda ruslpóst og var þess vegna á válista hjá Símanum. Skil ekki alveg af hverju þessi ip-tala er þá ekki bara tekin úr umferð... Það hefði a.m.k. verið skárra ef við hefðum fengið einhvern sjálfvirkan póst frá netþjóninum þar sem okkur hefði verið sagt að ekki hafi gengið að senda póstinn frá okkur. Meira ruglið.

Eins og þetta væri ekki nóg þá lenti ég í heljarinnar brasi með útreikninga á tryggingargjaldi en það er gjald sem allir atvinnurekendur þurfa að greiða, um leið og þeir greiða staðgreiðsluskatta til ríkissjóðs. Ég er með formúlu í Excel sem reiknar þetta út en svo er líka hægt að reikna þetta út á heimasíðu rsk.is. Vandamálið var bara að það stemmdu aldrei tölurnar hjá mér og rsk og ekki séns að ég gæti fundið hvar villan lá, þrátt fyrir að fara ítrekað yfir þetta allt saman.

Eftir vinnu fór ég svo í Hagkaup og þá vildi ekki betur til en ég rak ökklabeinið í eitthvert járnstykki sem stóð út úr hillurekka við kassann, þannig að við lá að ég ræki upp heljarinnar öskur af sársauka (það er svo hræðilega vont að reka bein í) en ég beit á vörina, gat nú ekki verið þekkt fyrir annað ;-)

Í bílnum á heimleiðinni var svo einhver ansi mikið utan við sig og ók af stað á rauðu ljósi og virtist ekki sjá bílinn sem var á sama tíma að aka yfir gatnamótin á grænu ljósi. Ökumaður þess bíls virtist nú ekki taka eftir neinu heldur en sem betur fer var ég vakandi og flautaði á þann sem ók yfir á rauðu, svo hann snarstoppaði. Eða svo gott sem, það var reyndar fljúgandi hálka svo hann stoppaði nú ekki alveg einn, tveir, þrír - en slapp að minnsta kosti við að klessa á.

Þetta blogg fer í flokk með því sem Valur kallar "kellingablogg" en það verður bara að hafa það.

Engin ummæli: