föstudagur, 23. janúar 2009

Kvennaklúbbur Akureyrar mun halda fund hjá mér á eftir

Já, það er ekkert smá nafn á pínulitlum klúbbi :-) Við týnum alltaf tölunni vegna flutninga félagskvenna til Reykjavíkur og erum bara 6 núna en höfum mest verið 12 eða 13 minnir mig. Það var á þeim árum þegar flestar okkar voru líka með lítil börn og fylgdu þau oft með í klúbbinn, þannig að þá gat orðið virkilega fjölmennt. En sem sagt, börnin flest orðin stór og mömmurnar orðnar svo svakalega uppteknar við ýmislegt, þannig að í staðinn fyrir að hittast vikulega líða nú oft 2, 3 eða jafnvel 4 vikur milli funda. Það breytir því þó ekki að það er alltaf jafn gaman og góð afslöppun að koma saman nokkrar kellur að háma í sig góðgæti og skrafa saman. Eini gallinn á gjöf Njarðar er sá að maður þarf að láta sér detta eitthvað í hug til að bjóða uppá í þau skipti sem maður er sjálfur gestgjafinn. Í þetta sinnið verður eintóm hollusta á borðum hjá mér; eiturgræn spínatbaka, jarðarberjaterta og eplakaka, allt glúteinlaust og nánast sykurlaust (svindlaði og bætti smá hrásykri í eplakökuna, fannst hún helst til bragðdauf). Og það sem meira er, ég er nánast tilbúin með þetta allt saman og ennþá er klukkutími þar til dömurnar mæta á svæðið. Á bara eftir að græja jarðarberjafyllinguna í kökuna og bræða saman kakó, kókosolíu og agavesíróp ofan á hana. Já, og laga aðeins til og leggja á borð... Ætli sé ekki best að halda áfram.

Engin ummæli: