miðvikudagur, 28. janúar 2009

Fallegur dagur


Fallegur dagur, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já, það var svo sannarlega fallegt veðrið hér í dag. Sérlega fallegt reyndar í kringum hádegisbilið en þá skrapp ég smá rúnt og tók nokkrar myndir. Það sjá víst allir Akureyringar hvar þessi mynd er tekin en svona fyrir aðra, þá er þetta Slippurinn þarna í baksýn. Hvaða tankar eða turnar þetta eru þarna til hægri veit ég hins vegar ekki.
Annars var ég í fríi í dag (alltaf annan hvern miðvikudag, algjör lúxus) og fór í leikfimi (hehe, ef leikfimi getur kallast, þetta eru nokkrar æfingar í tækjasal og teygjur, já og ganga á bretti) og svo í búðarráp eftir hádegið. Ég held að ég hafi þrætt flestar verslanir miðbæjarins en það var fátt sem freistaði mín. En svona til að fá útrás fyrir kaupsýkina þá keypti ég mér bómullarhettupeysu til að vera í þegar ég fer í ræktina, svona utanyfir hlýrabol. Peysan var með 40% afslætti svo ég var bara nokkuð sátt.
Svo styttist aftur í skil á virðisaukaskatti. Alveg merkilegt hvað þetta kemur alltaf aftan að manni þó ég viti auðvitað fullvel að bókhaldið þarf að vera klárt annan hvern mánuð, þá byrja ég aldrei á að færa þetta fyrr en á síðustu stundu. Ótrúleg dama.

Engin ummæli: