sínu í dönskum háskóla. Sem minnir mig á það þegar ég tók fyrsta prófið mitt í norskum háskóla, í heimspekilegum forspjallsvísindum. Þá var ég í háskólanum í Bergen og þetta hafði verið hálf erfiður vetur. Hrefna var í fyrsta bekk í barnaskóla, Andri var sex mánaða þegar ég hóf námið og Valur var í framhaldsnámi við Haukeland sykehus. Í september dó pabbi og ég fór heim með Andra í jarðarförina, enda ennþá með hann á brjósti. Ég kunni takmarkaða norsku og skildi oft ekki stakt orð á fyrirlestrunum því kennararnir töluðu sumir hverjir svo "óskiljanlega" mállýsku (fannst mér þá). Norsk-íslenska orðabókin mín var mikið notuð þetta haustið en þrátt fyrir að reyna að lesa þegar því varð við komið, þá fannst mér ég ekki skilja neitt í námsefninu.
Það var ekki fyrr en ég fór að lesa á fullu fyrir prófið að þetta fór loks að smella saman. Kvöldið fyrir prófið las ég fram á nótt en gat svo með engu móti sofnað. Dottaði undir morgunn og vaknaði með þvílíkan streitu-magaverk. Reyndi að borða morgunmat en átti afar erfitt með að halda honum niðri. Prófið sjálft var haldið í risastórri íþróttahöll, sem ég held að sé stærsti prófstaður sem ég hef setið í fyrr og síðar. En einhvern veginn hafðist þetta nú allt og ég fékk alveg ágæta einkunn í blessaðri "fílunni".
Löngu síðar frétti ég að aðrir samlandar mínir höfðu tekið þennan áfanga á ensku (með hinum útlendingunum), því það var víst miklu léttara...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli