sunnudagur, 12. mars 2006

Helgin hefur verið býsna annasöm

en fjörið byrjaði strax á föstudaginn. Þá var opnunarhátíð hjá Læknastofum Akureyrar milli fimm og sjö, freyðivín, snittur og fullt af fólki. Um kvöldið fóru síðan eigendurnir fimm ásamt eiginkonum út að borða á Friðrik V. og þar sátum við fram á nótt við margrétta gourmet máltíð. Á laugardeginum var Ísak að keppa á Goðamótinu í fótbolta ásamt félögum sínum í KA og það var eiginlega full vinna að fylgja honum eftir á mótinu. Þeir spiluðu þrjá leiki og fóru í ísferð í Brynju að deginum til og í gærkvöldi var svo kvöldvaka. Í morgun var síðasti leikurinn hjá þeim og þar á eftir drifum við okkur í fjallið á skíði í glampandi sól og blíðu. Fótboltamótinu var svo slúttað kl. 15.30 og þá var öllum boðið í grillaðar pylsur og kók. Síðan fór ég í Bónus að versla fyrir vikuna og er eiginlega sprungin á limminu akkúrat núna... Ætlaði að fara að klára að undirbúa kennslu morgundagsins en fór að blogga í staðinn - ætli sé ekki best að hætta því og gera eitthvað af viti ;-)

Engin ummæli: