Ég skrapp út í smá göngutúr áðan. Það var nú eiginlega hálf fyndið að fylgjast með hugsunum mínum á meðan göngutúrinn stóð yfir. Fyrst í stað var ég hálf sloj eitthvað og gekk fremur álút held ég. Þá skaut þeirri hugsun upp í kollinn á mér að ég yrði að rétta úr mér og ganga eins og ég væri lifandi en ekki dauð. Svo ég tók á mig rögg og gekk eitthvað hnarreistari áfram. Reyndar var svo ofboðslega hált, svo það var nú hálf erfitt annað en horfa niður fyrir fæturnar á sér, svona ef maður vildi á annað borð koma heill heim.
Jæja, um miðbik göngutúrsins var farið að lifna yfir minni. Súrefnið farið að streyma út í allt kerfið og ég varð öll léttari á mér, bæði líkamlega og andlega. Fór í smá stund á flug, þ.e.a.s. fór að hugsa um það að ég væri nú bara vel hress og mikið sem það væri nú gott að fara út að ganga. Ég gæti nú bara gengið lengri leið en ég ætlaði mér upphaflega.
En Adam var ekki lengi í Paradís. Fyrr en varði náði þreytan tökum á mér og í ofanálag varð mér óglatt. Þá var stutt í sjálfsásökun og læti. "Guðný þú hefðir betur sleppt því að borða tortillaflögur og súkkulaði rétt áður en þú fórst út að ganga" "Já en mig vantaði jú fljótfengna orku ...
Ég harkaði af mér og í stað þess að ganga stystu leið heim þá fór ég örlítið lengri leið. Þá byrjaði söngurinn í höfðinu á mér aftur. "Oh Guðný, af hverju gastu ekki verið skynsöm, af hverju fórstu ekki beinustu leið heim þegar þú fannst að þér var farið að líða illa? Já af hverju? Hm, ég hef ekki hugmynd um það. Sennilega af því mig langaði bara að labba aðra leið en þessa venjulegu.
Hehe, já þetta er bara fyndið, það er ekki hægt að segja annað. Snilldin er líka að geta áttað sig á því hvaða hugsanir eru að fara í gegnum kollinn á manni, og geta komið með "skynsamlegri" hugsanir á móti þessum vitlausu sem gera ekkert annað en brjóta mann niður.
Ég t.d. stoppaði og tók þessa mynd og hugsaði með mér að ef ég hefði ekki farið út þá hefði ég ekki fengið að sjá þetta myndefni + ég hefði ekki fengið neitt súrefni í dag. Sem sagt, það var jákvætt að drífa sig út þrátt fyrir að þreytan næði fljótt yfirhöndinni og ég misreiknaði mig aðeins í vegalengdinni. Sem varð í heildina 1,13 km. samkvæmt Garmin úrinu mínu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli