laugardagur, 23. október 2004

Jæja, skrifa alveg villt og galið

Þetta er náttúrulega alveg nýtt líf með þessu nýja lúkki (ég hef tekið eftir því að mér hættir til að ofnota orðið "náttúrulega" en vonandi verður mér fyrirgefið). Vandamálið er bara að orðaforði minn er að verða svo takmarkaður eitthvað. Kannski les ég ekki nóg? Hef áhyggjur af því að lítill orðaforði komi til með að há mér í skriftum. Eftir alltof stutt en frábærlega skemmtilegt námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni (höfundi Blíðfinnsbókanna m.a. - Ferilskráin hans er svo löng að það tekur eilífðartíma að skrolla niður síðuna) þá var nú eiginlega meiningin að fara að skrifa eitthvað annað en blogg.

En svo stendur til að hann komi norður einu sinni í mánuði og hitti okkur á eins konar framhaldsnámskeiði - sem er hið besta mál, reyndar alveg frábært því hann er ótrúlegur karakter og fær mann til að hugsa marga hluti alveg upp á nýtt - nema hvað, mín er náttúrulega (sko, notaði aftur sama orðið) ekki búin að skrifa neitt síðan á námskeiðinu og ef vel er að gáð, skrifaði eiginlega ekki neitt á námskeiðinu heldur. Þannig að nú er bara að bretta upp á ermarnar og setja sig í stellingar og BYRJA AÐ SKRIFA ÞÓ ANDINN SÉ EKKI YFIR MÉR!


Engin ummæli: