Annars var hálfgert púsluspil hjá mér að komast á námskeiðið. Valur ennþá í Neskaupstað og Andri á handboltaæfingu frá kl. korter yfir átta til tíu. Ísak var á námskeiði í silfursmíði frá kl. sex til átta og til að hann þyrfti ekki að vera einn heima í kvöld þá datt mér í hug að vinur hans gæti gist hjá honum. Allt í góðu með það, þurfti reyndar að hringja nokkrum sinnum heim og "fjarstýra" en þegar ég kom loks heim kl. hálf ellefu átti Ísak ennþá eftir að fá kvöldmat. Þannig að ég snaraði pylsum í pottinn sem þeir gleyptu í sig í einum grænum. Síðan voru þeir reknir beint í tannburstun og liggja núna og eiga að vera að fara að sofa. Það tekst þó ekki alveg, enda vita allir sem einhvern tíman hafa gist hjá vinum sínum að fyrst þarf að spjalla, segja brandara o.s.frv.
Er búin að vera með einhverja árans drullupesti í bráðum heila viku núna og gengur illa að losna við hana þrátt fyrir að gleypa vítamín og ólífulauf í tonnatali. Mér skilst reyndar að hálfur bærinn sé með þessa pesti þannig að ekki get ég kvartað. Hrefna dóttir mín er líka veik og búin að mæta í vinnu alveg aðframkomin af því það eru svo margir í vinnunni veikir. Í gær sagði ónefndur vinur minn -"Ég er ekki að reyna að vera leiðinlegur en þú ert eins og skítur". Ekki löngu seinna fór ég í 10-11 og þar sat Hrefna á kassanum og afgreiddi mann og annan, náföl í framan með annað augað rautt og bólgið og dúndrandi hausverk þar að auki. Í þeirri samkeppni sem ríkti milli okkar mæðgnanna um það hvor okkar liti verr út þá vann hún yfirburðasigur!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli