miðvikudagur, 2. janúar 2013

2013


Það tekur alltaf svolítið á að byrja að skrifa nýtt ártal. Maður er jú búinn að skrifa þetta gamla svo oft, en já þá er bara að byrja að æfa sig, hehe ;)

Annars er ekkert nýtt í fréttum síðan síðast. Hvíld, bóklestur og notaleg samvera við fjölskyldumeðlimi hefur verið þema jóla og áramóta, en nú er víst komið að því að hefja daglegt líf að nýju. Mér finnst stundum svo skrítið að mæta aftur til vinnu eftir lengri frí, en svo er það fínt um leið og ég er komin þangað. Maður verður víst bara "yfirsig" latur og langar helst að halda letilífinu áfram.

En já eins og ég sagði þá fer lífið að ganga sinn vanagang. Hrefna og Egil fara til Danmerkur á morgun, Ísak byrjar í skólanum á föstudaginn og Andri fer bráðlega aftur suður í skólann. Ég reikna fastlega með því að það verði hálf tómlegt í húsinu þegar farfuglarnir verða farnir aftur til síns heima, en þannig er það víst bara.

Ég er aðeins byrjuð að nota ljósmyndadagbókina (Blippið) aftur, mér til gamans. Þar er markmiðið að birta eina mynd á dag, sem þarf að vera tekin sama dag og hún er sett inn á vefinn. Þar  stendur hnífurinn í kúnni, eða gerði það í fyrra, þegar mér tókst nú samt að setja inn mynd nánast daglega frá því í byrjun desember og fram í apríl. En þá datt líka botninn úr tunnunni hjá mér. Það er meira en að segja það að 1) muna eftir því að taka mynd á hverjum degi og 2) að finna myndefni þegar dagarnir eru hverjum öðrum líkir.

Svo var ég að skoða gömlu færslurnar mínar um daginn og fannst pínu gaman að skoða myndirnar og lesa textann, og ákvað að gefa þessu annan séns. Núna er ég líka komin með smáforrit í símann minn sem gerir mér kleift (ef ég vil) að taka mynd á símann og senda beint í Blippið. Þetta sama smáforrit sendir mér líka skilaboð í kringum kvöldmatarleytið og minnir mig á að taka mynd dagsins.

Hm, þá dettur  mér bara ekkert fleira í hug til að segja, nema að myndin sem fylgir er tekin af svölunum hjá okkur á gamlárskvöld og sýnir smá brotabrot af allri flugeldadýrðinni sem fyrir augun bar í kringum miðnættið.



2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi mynd gæti nú passað vel á jólakort.Kveðja, Þórdís.

ella sagði...

Frábær mynd!