Ég gat nú reyndar ekki tekið eins mikinn þátt í undirbúningnum og ég hefði viljað. Það var einhver lumbra í mér og er enn. Þó er ég örlítið hressari í dag, sem betur fer.
Mér finnst þetta að sumu leyti heildstæðasta sýningin okkar og hún kemur ágætlega út í þessu rými. Hins vegar vorum við nokkrar sem lentum í því að myndirnar okkar prentuðust ekki nógu vel út, þ.e.a.s. urðu mun dekkri en þær áttu að vera. Mín mynd t.d. missir mikið við þetta, græna grasið er brúnleitt og legsteinninn í hægra horninu sést ekki nema rýna í myndina. Skuggarnir eru meira eins og dökkar klessur, heldur en gegnsæir skuggar. Jamm, ég er pínu spæld yfir þessu en nenni þó ekki að vera með vesen. Fólkið sem skoðar sýninguna veit náttúrulega ekki hvernig myndirnar "eiga" að vera, og það getur bæði verið kostur og ókostur.
Annars hef ég bara sofið alveg ótrúlega mikið undanfarna daga og nætur. Kom t.d. heim úr vinnunni um hálf fjögur á föstudaginn, og ætlaði eiginlega að mæta í konuklúbb klukkutíma seinna. Var hins vegar svo ónýt að ég boðaði forföll og svaf í staðinn í heila tvo tíma á sófanum. Svo bauð ég Vali og Ísaki út að borða í tilefni bóndadagsins.
Við fórum á nýlegan veitingastað sem starfræktur í Laxdalshúsi. Það eru tveir Spánverjar sem reka staðinn og eru með matseðil frá Kanaríeyjum. Í viðbót við þá rétti sem eru á matseðlinum, taldi þjónninn svo upp fjóra aðra rétti sem einnig voru í boði. Einn þeirra hljómaði nokkuð vel, eða "kjúklingabollur með chorizo pylsu og söltuðum svínarifjum". Þjónninn sagði kjúklingabollur á íslensku en hitt á ensku. Við pöntuðum okkur öll þennan rétt - og gátum ekki varist hlátri þegar maturinn kom á borðið. Þá voru þetta kjúklingabaunir en ekki bollur. Dálítill munur þar á. Baunarétturinn bragðaðist samt ágætlega og það var ágætis tilbreyting að fara á þennan stað.
Nú er bara að vona að ég haldi áfram að hressast því það verður að segjast eins og er að andlega hliðin má ekki við þessu. "Fröken Væla Veinólínó" kemur í heimsókn þegar ég er svona slöpp og sloj, og ég fór t.d. að hugsa um að ég gæti bara ekki verið í ljósmyndaklúbbnum lengur. Alltaf lasin þegar eitthvað er um að vera, hvort sem það eru sýningar eða ljósmyndaferðir.
En eins og ég segi þá er ég mun skárri í dag en undanfarna daga, sem er reyndar eins gott því ég þarf að fara á fullt í bókhaldsvinnu, enda eru skil á virðisaukaskatti eftir 8 daga.
P.S. Fyrir Önnu: Þetta er myndin sem ég valdi fyrir sýninguna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli