sunnudagur, 6. janúar 2013

Spíra ekki öll fræ um síðir?


Segir Edda Heiðrún Backman í viðtali í Morgunblaðinu 23. des. 2012. Ég ber mikla virðingu fyrir Eddu Heiðrúnu og dáist að því hvernig hún hefur tekist á við sjúkdóminn MND og það að vera lömuð af hans völdum. Hún var jú áður fyrr leikkona en málar núna með munninum, alveg hreint dásamlega fallegar myndir. Í viðtalinu segir hún að vinkona hennar, Auður Ava Ólafsdóttir (rithöfundur og listfræðingur) hafi sagt við hana fyrir rúmum tuttugu árum síðan að Edda Heiðrún væri á rangri hillu í lífinu. Hún ætti að vera listmálari. Þá hló Edda Heiðrún bara að bullinu í vinkonu sinni enda átti leiklistin hug hennar allan.  " En spíra ekki öll fræ um síðir?" segir hún svo.

Þessi setning kallaði á mig, enda hef ég lengi alið í mér ákveðið fræ sem ég hef ekki gefið tækifæri til að blómstra, og mokað ákveðið yfir það ef smá spíra hefur gægst uppúr moldinni.

Mitt fræ sem ekki fær að blómstra er þörfin/löngunin til að skrifa. Alveg frá því ég var krakki hefur mig langað að skrifa og það hafa vissulega komið tímabil sem ég hef verið örlítið nær því en ella. Það sem þá hefur gerst, er að um leið og ég fer að gefa þessu smá séns, þá koma alls kyns órökréttar hugsanir og tilfinningar upp á yfirborðið, og ég lúffa fyrir þeim.

Ég hef þó farið á tvö námskeið í skapandi skrifum og haft óskaplega gaman af þeim báðum. Hið fyrra var fyrir 16-17 árum og leiðbeinandi þar var Björg Árnadóttir. Það var fínt námskeið og hún lagði áherslu á verklegar æfingar. Þar skrifaði ég eina smásögu og byrjaði á annarri sem ég kláraði svo skömmu síðar.

Seinna námskeiðið var haustið 2004 og þá var Þorvaldur Þorsteinsson leiðbeinandi. Námskeiðið hjá honum bar ekki jafn góðan árangur, svona afurðalega séð, en hins vegar kviknuðu alls kyns ljós í kollinum á mér og margt af því er enn að grassera. Eitt af því sem hann nefndi var t.d. að ef eitthvað grípur þig í efni sem þú ert að lesa, t.d. ein setning sem virðist öðlast sjálfstætt líf og á einhvern hátt kalla á þig, þá áttu að gefa þeirri setningu gaum. Til dæmis með því að skrifa hana hjá þér. Það er ekki að ástæðulausu að við veitum sumum hlutum meiri athygli en öðrum, þó við gerum okkur ekki alltaf strax grein fyrir ástæðunni.

En Þorvaldur talaði líka um fræ sem þyrftu að fá pláss til að spíra og verða að fallegum plöntum. Ef garðurinn er fullur af t.d. illgresi eða öðrum plöntum þá er ekki pláss fyrir það sem gæti orðið falleg planta. Þannig getur þurft að grisja til að gefa nýju lífi pláss. Hann t.d. var listmálari en þegar hann hætti að mála þá fór hann að skrifa og skrifaði m.a. bækurnar um hann Blíðfinn. Og eins og Edda Heiðrún, hún hefði líklega aldrei farið að mála nema af því hún gat ekki leikið lengur.

Annars er þetta orðið gott af pælingum í bili.... Ég náði þó alla vega að róa mig svolítið niður með þessu. Var nefnilega á þreytu-pirrings-langar til að gera eitthvað en hef ekki orku - stiginu. Held að mér líði betur núna ;-)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Datt í hug hvort þu hefðir séð bæklinginn frá endurmenntun Háskóla Íslands sem kom út núna í januar.Þar eru meðal margs annars námskeið sem heita úr neista í nýja bók og það verður bæði kennt í Reykjavík og í Hofi á Akureyri, bæði fjartímar og kennsla í Hofi. Kennari er Anna Heiða Pálsdóttir ( sem ég veit ekkert hver er), en hún er sögð rithöfundur og doktor í bókmenntafræði. Það er takmarkaður þátttakendafjöldi. Þú ert nú trúlega búin að sjá þetta, en ætla samt að senda þennan pistil. Kveðja, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Sæl Þórdís og þakka þér fyrir þessa ábendingu. Ég hef ekki séð bæklinginn frá Endurmenntun Háskólans, en leitaði að námskeiðinu á netinu þegar ég sá athugasemdina frá þér. Nú er bara að duga eða drepast... hehe ;) Aldrei að vita nema ég skelli mér :)

ella sagði...

Þessi mynd!! vaáá
Mætti kannski segja að þú hafi ekki gert annað en að finna listaverkið og taka mynd af því en takk fyrir að sýna okkur.

Guðný Pálína sagði...

Já Ella, það er enginn jafn mikill listamaður og náttúran sjálf!