sunnudagur, 13. janúar 2013

Einfaldara líf


Ég hef verið að lesa dálítið undanfarið um Simple living, Minimalism, Slow living ofl. Þetta eru ólíkar stefnur sem hafa þó ákveðna sameiginlega þætti, s.s. að lifa einfaldara lífi, eiga minna af veraldlegum hlutum og kaupa ekki nýja nema þig vanti þá (hér er gerður greinarmunur á þörfum og óskum). Fólk sem aðhyllist slíkt minnkar oft við sig húsnæði og í kjölfarið þarf það minna af peningum til að lifa af, sem aftur leiðir til aukins fjárhagslegs öryggis og þess að fólk getur jafnvel minnkað við sig vinnuna. Minni vinna þýðir aukinn frítími sem hægt er að nota á uppbyggilegan hátt t.d. með því að njóta samveru við vini og ættingja, eða stunda áhugamál sín.

Tammy Strobel og Logan Smith eru ung hjón sem bjuggu í stórri íbúð og áttu tvo bíla en náðu varla að láta enda ná saman. Þau búa núna í örlitlu húsi (svipuðu litlu hjólhýsi á íslenskan mælikvarða), eiga ekki bíl og njóta þessa nýja lífsstíls síns. Húsið þeirra er reyndar svo ofboðslega lítið að ég stórefast um að mér gæti liðið vel í þetta litlu rými.

Joshua Becker var að laga til í bílskúrnum á sólríkum sumardegi og búin að bera helling af dóti út á bílaplanið, þegar nágranni hans sagði, að kannski þyrfti hann ekki að eiga allt þetta dót. Þessi setning varð honum umhugsunarefni og í kjölfarið tóku þau hjónin sig til og losuðu sig við helling af dóti. Þau búa að vísu enn í stóru húsi og eiga tvo bíla en eru hætt að "safna" dauðum hlutum sem ekki bæta líf þeirra. Joshua heldur líka úti blogginu Becoming Minimalist þar sem hann skrifar greinar og kemur með góð ráð til þeirra sem vilja taka upp svipaða lifnaðarhætti.

Á netinu er hægt að finna alls konar fleiri bækur, sögur, blogg og vefsíður fólks sem hefur ákveðið að lifa einfaldara lífi. Ég kannski set inn fleiri tengla á þær síður við tækifæri.

Ástæða þess að ég er að velta þessum hlutum fyrir mér er væntanlega sú að við erum orðin þrjú sem búum í risastóru húsi. Á neðri hæð er sjónvarpsherbergi, skrifstofa Vals, tónlistarherbergi, gestaherbergi og baðherbergi. Á efri hæð er þvottahús, baðherbergi, gestasnyrting, eldhús, búr, stofa og fjögur svefnherbergi. Já ég gleymdi að segja frá geymslunni niðri og bílskúrnum. Í þessu plássi öllu er töluvert af alls konar dóti, sem sumt hvert gæti kannski öðlast framhaldslíf annars staðar. Þó hef ég verið nokkuð dugleg við það í gegnum árin að henda og gefa dót/hluti/fatnað sem er ekki lengur í notkun.

Svo kostar hellings pening að reka svona stórt hús. Fyrir utan afborganir af lánum þá eru há fasteignagjöld og töluverður rafmagns- og hitunarkostnaður.

En - þetta er húsið sem ég ólst upp í - og börnin mín eru alin upp í - svo það eru töluverðar tilfinningar tengdar því. Að auki er það vel staðsett í rólegu og góðu hverfi og við erum með fína nágranna. Garðurinn er stór og við erum með útsýni upp að Súlum. Jamm, margir plúsar.

Tilfinningalega séð þá er ég ekki ennþá tilbúin að selja húsið og fara í minna. En það sakar kannski ekki að byrja að losa sig við dót sem ekki er í notkun, svo það verði minna að flytja þegar þar að kemur ;-)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert að sumu leiti búin að svara þessu sjálf; myndin með textanum sýnir klaka er bráðna og minnka!

Halur

Fríða sagði...

Eins og talað úr mínu hjarta! :)

Guðný Pálína sagði...

Já Halur minn kær, kannski myndin hafi alls ekki verið valin af handahófi eins og ég hélt ... ;)

Fríða, já eitthvað kannast ég við svipaða hugsun úr þínum ranni :)