Já ég veit, þetta fer kannski að verða ofnotaður titill á bloggfærslum hjá mér ... En ég er bara svo löt í dag. Nenni gjörsamlega engu - en þarf að fara að vinna. Veit reyndar að ég hressist ábyggilega um leið og ég kem niður í vinnu, enda næg verkefni sem bíða þar. Aðallega vörutalning þó. Við Sunna höfum verið að telja í rólegheitum og þetta tekur alltaf tímann sinn. Í dag ætla ég að nota tækifærið til að telja inni á lager, því við erum tvær að vinna, og þá getur Kara verið frammi í búð að afgreiða viðskiptavini á meðan.
Annars tókst mér að skera mig í fingurinn, enn einu sinni, í vinnuni í gær. Mér finnst ég alltaf vera að skera mig en ætli þetta sé ekki þriðja skiptið, að minnsta kosti. Síðast skar ég mig á laukskera en í gær var ég að ganga frá hnífi sem ég var að sýna manni, og leit andartak í burtu meðan ég setti hnífinn ofan í kassa, með þessum afleiðingum. Ég fann strax að þetta var frekar djúpur skurður en tókst að klemma sárið fast saman á meðan ég kláraði að tala við viðskiptavininn. Svo hljóp ég í apótekið og keypti steri-strip til að líma sárið saman. Það dugar ekki að setja venjulegan plástur á svona skurði. En það breytir því samt ekki að það er ótrúlega óþægilegt að skera sig svona og ég var að drepast í puttanum í allan gærdag.
Jæja nú þýðir ekki þessi leti lengur. Ég verð að drattast með minn lata rass í sturtu og svo á ég líka eftir að borða eitthvað og helst hefði mig langað að ganga í vinnuna af því það er svo gott veður úti. Miðað við tímann sem ég hef til aflögu þá er það reyndar ekki raunhæfur kostur. En svona já, á fætur með þig kona!!
P.S. Myndin sem fylgir er tekin í apríl 2009, við Leirhnjúk í Mývantssveit.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli