Ég er enn að laga til og henda gömlu dóti sem ekki hefur verið notað í ár og öld. Sem dæmi má nefna skólabækur í heimspeki og sálfræði frá 1991-1994, gamla skátabakpokann minn, gömul ónýt leikföng, gömul föt, glósur úr viðskiptafræðinni og margt margt fleira. Því miður verður þetta til þess að sorpið á ruslahaugunum eykst töluvert og minnir mig á það í hvílíku ófremdarástandi sorpmál Akureyringa eru. Það er ófögur sjón sem mætir fólki sem ætlar að ganga á Súlur og þarf að fara fram hjá sorphaugunum á þeirri ferð sinni.
En kosturinn við svona tiltekt er líka sá að við að fara í gegnum dótið (ég grandskoða þetta allt og geymi margt þó ég hendi mörgu) þá rifjast upp svo margar góðar minningar. Áðan fór ég t.d. í gegnum kassa með leikföngum og fann m.a. dúkkur og dúkkuföt sem Hrefna átti þegar hún var lítil. Í pokanum með dúkkufötunum voru föt sem Anna systir hafði prjónað, ég hafði saumað og prjónað, og til að kóróna það, föt af Hrefnu sjálfri frá því hún var pínu pons. Ef þetta kveikir ekki minningar þá veit ég ekki hvað!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli